Úrskurðurinn kominn: Ólögmætt að vista fólk í farsóttarhúsi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að ólögmætt sé að halda fólki í sóttkví í farsóttarhúsi líkt og gert hefur verið undanfarna daga.

Fréttablaðið greindi frá þessu fyrst miðla nú um kvöldmatarleytið og staðfesti Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður tíðindin. Hann er lögmaður konu sem dvelur á hótelinu ásamt dóttur sinni.

Óvíst er hvaða afleiðingar þetta hefur en í það heila hafa nokkur hundruð manns dvalið á farsóttarhótelinu við Þórunnartún og voru á þriðja hundruð gestir þar í nótt.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagðist á dögunum hafa verulegar efasemdir um að sóttvarnalög heimiluðu þá framkvæmd sem nú er í gildi á landamærunum.

„Hvergi er skýr heimild til þess að neyða alla ferðamenn frá ákveðnum svæðum til dvalar í sóttvarnarhúsi. Til þess að skerða mannréttindi fólks með jafn umfangsmiklum hætti þurfa stjórnvöld að minnsta kosti að hafa skýra lagaheimild fyrir skerðingunni, annars er þessi framkvæmd bara brot á stjórnarskrárvörðum réttindum fólks til frelsis. Reynist það rétt mat hjá mér, er þessi ríkisstjórn að baka ríkinu gríðarlega skaðabótaskyldu fyrir ólögmætar frelsissviptingar á skala sem ekki hefur áður þekkst,“ sagði Þórhildur Sunna á föstudaginn langa.

Viðbót klukkan 18:11:

Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, hefur brugðist við tíðindunum á Facebook-síðu sinni og segir hún: „Jæja kæra ríkisstjórn. Eigum við kannski að kalla þing saman á morgun og setja lög eða verðum við enn að horfa á ósamstíga ríkisstjórn svo nauðsynlegar aðgerðir komist ekki til framkvæmda?“