Spænsku túristarnir brjálaðir: Ætla aldrei aftur til Íslands – Algjör martröð

Óhætt er að segja að draumaferð spænskra hjóna til Íslands hafi breyst í martröð um helgina þegar hjónin voru stöðvuð í Leifsstöð og meinað að koma inn í landið.

Eins og greint var frá um helgina voru tíu ferðamenn frá Spáni stöðvaðir þar sem þeir voru ekki taldir uppfylla skilyrði reglugerðar dómsmálaráðherra sem bannar ónauðsynlegar ferðir frá svokölluðum hááhættusvæðum. Spænsku hjónin, Conchi og Jordi, voru í þessum hópi en þau hugðust fara til Íslands til að fagna 25 ára brúðkaupsafmæli sínu.

Fjallað er um málið í spænska vefmiðlinum Larazon.

Sjá einnig: Sigursteinn ekki sáttur við meðferðina á spænsku ferðamönnunum

Hjónin hugðust dvelja hér á landi í þrjár vikur en þurftu frá að hverfa eftir aðeins 48 klukkustundir og það án þess að sjá það sem Ísland hefur upp á að bjóða. Hjónin vanda yfirvöldum hér ekki kveðjurnar og segjast aldrei aftur ætla að koma til landsins.

Tekið er fram að hjónin hafi gripið til allra nauðsynlegra ráðstafana sem þau töldu að þau þyrftu að uppfylla. Þannig gengust þau undir COVID-próf áður en þau stigu upp í vélina og höfðu einnig leigt íbúð þar sem þau ætluðu að dvelja í sóttkví uns niðurstaða seinni skimunar lægi fyrir.

Conchi er virkilega reið yfir því hvernig málið fór enda höfðu þau hjónin lengt ferðina til að geta dvalið hér í sóttkví. Ætluðu þau að stunda fjarvinnu frá dvalarstað sínum í sóttkví og fylgja öllum reglum. „Þau hefðu ekki átt að leyfa okkur að fljúga hingað, eða stíga fæti um borð í vélina, ef reglurnar eru svona,“ segir Conchi en breytingin tók gildi daginn áður en flogið var til Íslands.

Conchi segir að íslenska lögreglan hafi komið fram við þau – og nokkra aðra spænska ferðamenn – eins og glæpamenn. Þannig hafi lögregla lagt hald á pappíra og þá hafi tveir lögreglumenn fylgst með þeim allan tímann. Þau höfðu samband við erindreka Spánar hér á landi um að hlutast til í málinu en án árangurs.

Jordi segir að það sé ekki nokkur möguleiki á að þau hjónin ætli að fara aftur til Íslands. „Ég er ekki að grínast, ég fer aldrei aftur,“ segir Jordi og bætir við að þetta hafi verið eitthvað versta ferðalag sögunnar og í raun algjör martröð.

Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, sagði í fréttum RÚV á sunnudag að í gildi væru allskonar undanþágur sem fólk gæti sótt um. „En þetta fólk fellur ekki undir neitt af því. Það er ekki bólusett og það er ekki með búsetu hér eða fjölskyldutengsl. Þetta eru bara ferðamenn, túristar.“