Sigursteinn ekki sáttur við meðferðina á spænsku ferðamönnunum

Fjölmiðlamaðurinn Sigursteinn Másson er ósáttur við þá meðferð sem tíu spænskir ferðamenn þurftu að sæta við komuna hingað til lands um helgina. Fólkið var ekki talið uppfylla skilyrði reglugerðar dómsmálaráðherra sem bannar ónauðsynlegar ferðir frá svokölluðum hááhættusvæðum.

Spánn bættist við þennan lista síðastliðinn föstudag, en reglugerðin tekur til þeirra sem koma frá svæðum þar sem nýgengi smita er yfir 700 á hverja 100 þúsund íbúa.

Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, sagði í fréttum RÚV í gær að í gildi væru allskonar undanþágur sem fólk gæti sótt um. „En þetta fólk fellur ekki undir neitt af því. Það er ekki bólusett og það er ekki með búsetu hér eða fjölskyldutengsl. Þetta eru bara ferðamenn, túristar.“

Sigursteinn segir aftur á móti að nýgengi smita á Spáni, samkvæmt opinberum tölum, síðastliðinn fimmtudag sé 202 á hverja 100 þúsund íbúa, eða langt undir þeim 700 sem er háhættuviðmið. Sigursteinn dvaldi sjálfur á Spáni í nær allan vetur og kom heim til Íslands fyrir skemmstu. Hann þekkir því stöðuna ágætlega þar í landi.

„Smitin þar í landi eru á niðurleið og neyðarástandi aflétt af ríkisstjórn Spánar i gær. Engu að síður er komið svona fram við spænska ferðamenn sem tóku PCR prófin sín á Spáni á föstudaginn, daginn sem hin undarlega reglugerð var undirrituð af heilbrigðisráðherra. Hvert PCR próf í Evrópu kostar allt að tuttugu þúsund krónur á mann. Fólkið var með skjalfesta staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu, var tilbúið að fara í COVID próf við komuna til landsins eins og allir aðrir, þá í fimm daga sóttkví og svo í þriðja prófið fimm dögum eftir komu,“ sagði Sigursteinn á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. Hann endaði færslu sína á þessum orðum:

„Ég veit að margir eru mér ósammála en mér finnst þessar aðgerðir, að handtaka fólkið og senda til baka, óhóflegar og gerræðislegar og skil ekki hvernig endalaust er hægt að ganga lengra og lengra á landamærunum þrátt fyrir að búið sé að bólusetja alla áhættuhópa og gott betur.“