Páll er viss um að hvað lögreglan er að rannsaka: „Þetta er reyfarakennt og fjarstæðukennt“

Páll Vilhjálmsson, bloggari og kennari í fjölmiðlafræði, er handviss um að stórt samsæri sé að baki fréttum um skæruliðadeild Samherja síðasta vor og það sé ástæðan fyrir því að lögreglan á Akureyri sé að leggja mikla vinnu í að rannsaka kæru Páls Steingrímssonar, skipstjóra hjá Samherja og liðsmanns skæruliðadeildarinnar, á stolnum síma.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, hefur áður svarað kenningum Páls um málið og sagt þær alrangar. Þá hefur Bogi Ágústsson kallað Pál leigupenna Samherja.

Páll var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann fór ítarlega yfir kenningu sína um rannsókn lögreglu. Hann segir að eitrað hafi verið fyrir Páli Steingrímssyni og símanum hans stolið. Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri, var spurð af Vísi í nóvember síðastliðnum út í kenningu Páls um eitrunina, þá sagði hún: „Já! Þetta er mjög … sérstakt.“ Hún vildi þó ekki segja meira.

Eftir að hafa rakið hver hafi verið að vinna hvar á hvaða tímapunkti sagði Páll:

„Ég hugsa að lögregluyfirheyslur núna yfir blaðamönnum á Stundinni, Kjarnanum og RÚV, séu ekki vegna þess að einhver hefur rafrænt eða stafrænt farið inn í símann, heldur vegna afritunar á símanum. Síminn geymir þau gögn og sýnir að hann var afritaður hjá RÚV.“

Páll segir að hann sé ekki með lögregluskýrsluna fyrir framan sig en það liggi fyrir í ljósi atvika málsins. „Ég þykist handviss um það að fleiri en Þóra hjá RÚV verði yfirheyrðir. RÚV birti ekkert efni, heldur voru það einfaldlega Stundin og Kjarninn, hver var þá hlutur RÚV? Jú RÚV skipulagði þetta.“

Páll segir að hann hafi svo fengið upplýsingar til að sannreyna kenningar sínar, hann vill þó ekki gefa upp hvaðan þær koma:

„Á ég ekki að segja eins og Þórður? Ég stend með heimildarmönnum mínum.“

Annar þáttastjórnandinn spurði hvort þetta væru ekki bara kenningar. „Þetta er reyfarakennt og fjarstæðukennt,“ sagði hann.

Páll svaraði að það hljóti að vera að kenning sín sé rétt í ljósi þess að starfsmaður RÚV sé með réttarstöðu sakbornings.

„Sími Páls geymir þær upplýsingar að hann hafi verið afritaður á RÚV,“ sagði hann.

„Lögreglan er með gögn máls sem sýnir að menn hafi gerst sekir um alvarleg afbrot. Þeir láta eins og það sé verið að elta heimildarmann. Það vita allir hver heimildarmaðurinn er, það eru gögnin úr síma Páls skipstjóra, það eina sem við eigum eftir að vita er hver stal símanum.“

Lögreglan hefur ekki viljað ræða við fjölmiðla um rannsóknina, en í gær var send eftirfarandi yfirlýsing:

„Í tilefni af umræðu í fjölmiðlum um rannsókn máls hjá embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra vill embættið koma eftirfarandi á framfæri. Embættið er með brot gegn friðhelgi einkalífs til rannsóknar og er málið í hefðbundnum farvegi. Liður í rannsóknum sakamála er að fram fari skýrslutökur af aðilum og vitnum í því skyni að upplýsa mál. Vegna rannsóknarhagsmuna mun embættið ekki veita frekari upplýsingar um málið.“