Ólína óttast dauða íslenskunnar: Unglingar í dag tala ensku en ekki íslensku

„Það eru engar ýkjur að inni í unglingaherbergjum víðsvegar um landið, í setustofum og á göngum framhaldsskólanna er töluð enska -- ekki íslenska,“ segir Ólína Þorvarðardóttir, þjóðháttafræðingur og fyrrverandi þingkona, í pistli á Facebook-síðu sinni.

Ólína deilir þar grein Völu Melstað, þýðanda með meiru, sem birtist í Fréttablaðinu í dag og fjallar um stöðu íslenska tungumálsins og ábyrgð RÚV. Hringbraut fjallaði um efni greinarinnar í morgun.

Ólína tekur undir það sem þar kemur fram að en bendir á að greinin varpi ljósi á stærra mál: Það er almennt og víðtækt undanhald íslenskunnar sem er vaxandi áhyggjuefni að hennar mati.

Stíflan alveg að bresta

„Mér líður stundum eins og stíflan sem á að verja tungumálið sé alveg að bresta og það muni gerast mjög hratt þegar þar að kemur. Það tekur ekki nema 2-3 kynslóðir að drepa tungumál, og sú ómeðvitaða vegferð er hafin hér á Íslandi. Með sama áframhaldi mun íslenskan deyja innan fárra áratuga,“ segir Ólína en ljóst er að margir taka undir þessar áhyggjur hennar.

Hún bætir við að raddir þeirra sem vilja standa vörð um tungumálið og treysta stoðirnar heyrist illa og séu oft kveðnar niður af þeim sem síst skyldi.

„Umræðunni drepið á dreif með tali um "þróun tungumálsins" og pexi um beygingarreglur, eða eitthvað sem er bara allt annað mál. Ísl-enskan er vandamálið,“ segir Ólína og bætir við að unglingar nú til dags tali orðið ensku að stóru leyti frekar en íslensku. Þá kynnu einhverjir að segja að þetta séu bara unglingarnir en eins og Ólína bendir á er þetta einmitt fólkið sem mun erfa landið.

„En ... það er ekki í tísku að verja tungumál okkar, að taka til varna fyrir þetta menningarverðmæti sem það er á heimsvísu. Sama fólkið og væri líklegt til þess að hlekkja sig við trukk til að bjarga lífi fíls eða gíraffa, hefur engan áhuga á að bjarga íslenskunni. Það skilur ekki að hún og fíllinn eru í sama vanda stödd - bæði eru í útrýmingarhættu.“

Vill mynda hollvinafélag um íslenskuna

Ólína telur að það sé tímabært að fólk taki sig saman um að mynda hollvinafélag, almannasamtök um íslenskuna, til að standa fyrir umræðu og umhugsun um gildi íslenskrar tungu í menningu okkar og á mælikvarða heimsins.

„Áhugamannasamtök sem stæðu fyrir opinni umræðu -- ekki boðum eða bönnum, ekki með svipu á lofti gagnvart þeim sem beygja vitlaust -- heldur með málþingum, greinaskrifum og annarri umfjöllun sem vakið getur áhuga á beitingu tungumálsins, glætt skilning á gildi þess og haldið stjórnvöldum, stofnunum og ýmsum áhrifavöldum samfélagsins við efnið.“

Ólína segir að fjölmiðlar hafi þýðingarmiklu hlutverki að gegna, en því miður hafi sumir þeirra sýnt slakt fordæmi, sér í lagi svokallaðar lífsstíls- og tískusíður þar sem fjallað er um áhrifavalda, klæðnað þeirra og lífshætti.

„Um daginn las ég umfjöllun á einni slíkri síðu þar sem persónufornöfn og samtengingar voru á íslensku, nánast allt annað var enska eða enskuskrípi sveimandi innan um eina og eina lýsingu á borð við "trylltur kjóll", "brjálæðislegir skór" og annað álíka sem tilheyrði fólki með "geðveikt vibe" sem var "ótrúlega trendí" og "töff í brandinu" ... og þar fram eftir götum.“

Ólína endar grein sína á þessum orðum:

„Er ekki tími til kominn að unnendur íslenskrar tungu taki höndum saman um að halda málstað hennar á lofti? Efla umræðu um gildi hennar, söguna sem hún geymir (því orðin sem við notum eru málsaga í sjálfu sér, þau vitna um ævagamlan uppruna og þróun máls. Það er gaman að flysja orðin og gegnumlýsa þau þegar skilningurinn er vakinn).

Ég er til. Vill einhver vera með?“