Vala segir að ábyrgð RÚV sé mikil: Óttast mjög um framtíð íslenskunnar - Manndrápsveður eða fólksdauðaveður?

Vala Hafstað, þýðandi með meiru, segir að Ríkisútvarpið vinni markvisst að því að svipta tungumálið okkar fegurð sinni og þokka. Ríkisútvarpið fær ekki bara á baukinn hjá Völu því aðrir fjölmiðlar fá það einnig þó Ríkisútvarpið sé fremst í flokki að hennar mati.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í aðsendri grein hennar í Fréttablaðinu í dag og hefur vakið talsverða athygli.

Hestafólk og lögreglufólk

„Upp á síð­kastið hafa æ fleiri frétta­menn stofnunarinnar tekið sér í munn þá nýlensku sem öðru hverju heyrðist í fyrra, en sem nú virðist hafa verið fyrir­skipuð að ofan. Þar á ég við orð­bragð á borð við stuðnings­fólk, hesta­fólk, björgunar­fólk, lög­reglu­fólk og aðila í alls kyns sam­setningum, í stað stuðnings-, hesta-, björgunar­sveitar- og lög­reglu­manna, o.s.frv.,“ segir Vala í grein sinni.

Hún bendir á að frá alda­öðli hafi verið hefð fyrir því í ís­lensku að vísa til ó­skil­greindra hópa með tölu­orðum og forn­öfnum í karl­kyni, en tals­menn ný­lenskunnar séu þessu and­snúnir. Þannig er ekki lengur talað um að þrír hafi verið hand­teknir, heldur þrjú, ekki minnst á þá sem brutu af sér, heldur þau, o.s.frv.

„Þessi tals­máti er ekki að­eins af­kára­legur, heldur krefst hann þess af frétta­mönnum að þeir hafi komist að því fyrir frétta­lesturinn hvort um­ræddir voru karlar eða konur.“

Konur eru og verða menn

Vala segir að það sem virðist hafa gleymst er að konur eru og verða alltaf menn. Hún segir að Ríkisútvarpið hafi brugðist algjörlega þeirri skyldu sinni að leggja sérstaka rækt við íslenska tungu – og það hafi aldrei verið mikilvægara en nú að leggja rækt við tungumálið.

„Ungt fólk í dag les tak­markaðan fjölda bóka og sækir sér alla sína af þreyingu og upp­lýsingar ýmist á netið, í hlaðvarp eða út­varp. Mál­vitund þess veltur því nær ein­göngu á þeim fyrir­myndum sem það fær á slíkum miðlum. Þar af leiðandi eru á­hrif RÚV gífur­leg. Eins og fram kemur á vef­síðu ykkar nýta meira en 70 prósent þjóðarinnar sér þjónustu Ríkis­út­varpsins dag­lega. Ný­lenskunni er því þvingað upp á stóran hluta þjóðarinnar á degi hverjum.“

Hefur ekkert með kvenréttindi að gera

Vala segir að stuðningurinn við nýlenskuna sé byggður á misskilningi. Hún hafi ekkert með frjálslyndi eða kvenréttindi að gera heldur beri hún vott um einstrengingslegan hugsunarhátt og algeran skort á máltilfinningu.

„Hún snýst ekki um jafn­réttis­bar­áttu heldur ýmist um of­stæki, sýndar­mennsku eða ótta við álit þrýsti­hópa. Það er hrein fá­sinna að líta á þessa afbökun tungu­málsins sem mikil­vægt vopn í bar­áttunni fyrir jafn­rétti. Það er sömu­leiðis út í hött að vinna mark­visst að því að út­rýma orðum sem eru fjarri því að kasta rýrð á nokkurn hóp. Þeir sem ný­lenskunni beita af­mynda tungu­málið undir yfir­skini til­tekinnar hug­mynda­fræði, en um leið rýra þeir og raska hefð­bundinni merkingu fjöl­margra orða.“

Vala segir að afleiðingin verði annars vegar sú að þeir sem ekki að­hyllast ný­lenskuna séu brenni­merktir sem karl­rembur eða í­hald­s­pakk, og hins vegar sú að nýja kyn­slóðin fær brenglaðan skilning á öllu sem áður var ritað.

„Hún fer t.d. að trúa því að hesta-, björgunar­sveitar- og starfs­menn hafi aldrei verið annað en karl­kyns. Af lestri gamalla frétta mun hún í­mynda sér að allir sem nokkurn tíma hafi verið hand­teknir, fluttir á sjúkra­hús, eða verið með ó­spektir í mið­bænum hafi verið karl­menn. Hún mun á­lykta að manna­mót hafi verið karla­sam­komur, manna­matur hafi verið ætlaður körlum einum, mann­gengir hellar verið lokaðir konum, að mann­ýg naut hafi að­eins ráðist á karla, o.s.frv.“

Manndrápsveður eða fólksdauðaveður?

Vala segir að ef fram fer sem horfir verði brýn þörf á að fá „and­lausa skrif­finna, sér­hæfða í tungu geld­leikans, til að endur­rita allar okkar bók­menntir og aðrar ritaðar heimildir sem fylgt hafa þjóðinni um aldir.“

Hún segir að þar muni mann­dráps­veður trú­lega verða kallað fólks­dauða­veður, manna­fælur ein­stak­linga­fælur, mann­gangur stykkja­hreyfingar, manna­mál fólks­mál, mann­broddar ein­stak­lings­broddar, lands­menn lands­fólk, mann­tal manneskju­tal, manna­mót aðilahittingar, og skessur munu ekki lengur finna manna­þef í helli sínum, heldur aðila­fýlu.