Lög­reglu­menn sárir út í Þór­hildi: Ætti jafn­vel að segja af sér

„Hljóð al­mennt í lög­reglu­mönnum er á þann veg að við­komandi ætti að hugsa sinn gang og jafn­vel að segja af sér. Menn tala í þá áttina,“ segir Arin­björn Snorra­son, for­maður Fé­lags lög­reglu­manna í Reykja­vík, á vef Vísis.

Arin­björn var þar spurður út í um­mæli Þór­hildar Sunnu Ævars­dóttur, þing­manns Pírata, vegna fána­málsins svo­kallaða sem kom upp í gær. Óskaði Þór­hildur eftir því að full­trúi lög­reglu kæmi á fund alls­herjar­nefndar Al­þingis vegna „ras­isma innan lög­reglunnar og að­ferðir til að sporna við honum“ eins og hún sagði á Al­þingi í gær.

„Það að þessi merki hafi komið upp, þá hafa lög­reglu­menn verið með þetta af einum góðum hug og aldrei í mínum eyrum eða annara sem ég hef rætt við hefur verið talað um rasísk skila­boð, alls ekki,“ sagði Arin­björn.

Allt hófst þetta eftir að mynd birtist með sak­lausri frétt af verk­efnum lög­reglunnar á vef mbl.is í gær þar sem lög­reglu­kona sást með Vín­lands­fánann svo­kallaða á búningnum sínum, en fáninn hefur verið tengdur hægri öfga­hyggju. Þá var hún með svo­kallaða thin blue line-út­gáfu af ís­lenska fánanum á búningnum. Um­rædd mynd var tekin árið 2018.

Ás­geir Þór Ás­geirs­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu, sagði í gær að málið væri tekið al­var­lega og þegar hefðu verið gefin út fyrir­mæli til lög­reglu­manna við em­bættið um að fjar­lægja allar auka­merkingar af vestum sem lög­reglu­menn bera við störf sín.

Arin­björn segist hins vegar telja að ekkert illt liggi að bak um­ræddum merkingum. Þetta hafi verið gert með þeim skilningi að þetta væri stuðningur eða stuðnings­skila­boð um gott mál­efni. „En alls ekki að þetta væri merki um kyn­þátta­hatur,“ segir hann í frétt Vísis.