Helgi kemur Tomma til varnar: „Kommon fólk, gaurinn er 72 ára gamall“

Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, kemur Tómasi Tómassyni, betur þekktum sem Tomma á Búllunni, til varnar í pistli á Facebook-síðu sinni. Tilefnið er blundur sem Tommi tók í þingsal Alþingis á fyrsta þingfundi sínum, líkt og Hringbraut greindi frá í gær.

Helgi tekur upp hanskann fyrir Tomma og segist sjálfur hafa lagt sig margoft þegar hann starfaði á þingi, meira að segja þegar mikið var að gera.

Hann segir nokkurs misskilnings gæta meðal almennings hvað þingmenn varðar: „Það er gaman að hneykslast. Fólk sér eflaust fyrir sér að góður þingmaður sé frelsishetjan dansandi tangó við Guð almáttugan í miðjum þingsal með hnefann á lofti, æpandi hvern baráttufrasann á fætur öðrum þar til elítan bugast yfir þunga ástríðunnar og ríður til falls,“ segir Helgi.

Hann heldur áfram: „Það er auðvitað flottari sýning heldur en samansafn af mennskum einstaklingum, bundna sömu líffræðilegu takmörkunum og öll hin. Og hver veit nema við fáum að sjá eina og eina slíka sýningu með Tomma í aðalhlutverki. Sjáum til,“ segir Helgi.

Því næst skellir Helgi fram játningu: „Í flestum ef ekki öllum þingflokksherbergjum er að minnsta kosti einn sófi. Ég lagði mig alveg í sófanum í okkar þingflokksherbergi af og til.“

Og það er ekki allt: „Vitiði hvenær? Ekki á næturna. Ekki heldur þegar það var ekkert að gera, eða þegar málin voru óáhugaverð. Ég lagði mig í honum þegar ég var úrvinda í vinnunni, þegar stórkostlega mikilvæg mál höfðu tröllriðið samfélaginu í nokkurn tíma og voru til hatrammlegrar umræðu ýmist á þinginu sjálfu eða utan þess,“ segir Helgi.

Hann lagði sig á ögurstundum: „Ég lagði mig þegar það var allt vitlaust að gera, ekki þrátt fyrir það heldur vegna þess.“

Hann hefur samúð með Tomma, en hann er kominn nokkuð á áttræðisaldurinn: „Og ég var ekki einu sinni orðinn fertugur. Kommon fólk, gaurinn er 72 ára gamall. Hvað með það að manneskja með þetta langa lífsreynslu sé aðeins farin að finna fyrir líkamlegum breytingum sem gera svefninn óreglulegri, sérstaklega í aðstæðum þar sem mikið er um að vera? Má það ekki bara vera þannig?“ spyr Helgi.

Hann segir blundinn hafa verið byrjendamistök hjá Tomma: „Ókei, ókei, kannski hefði hann átt að fara niður í sófann. En höfum þá á hreinu að það sé glæpurinn. Byrjendamistök. Fyrsti dagurinn og allt það.“

Helgi greinir því næst frá því að hann iðrist einskis: „Ég iðrast þess allavega ekkert að hafa lagt mig í sófanum. Treystið því að í engu þeirra tilfella hefði ég staðið mig betur án þess.“