Helga Ben misnotuð 16 ára og þagði í 43 ár: „Fljótlega fór hann að senda vini sína“

Helga Benediktsdóttir, systir Jónínu Ben heitinnar, opnar sig á Facebook um misnotkun sem hún segist hafa orðið fyrir aðeins 16 ára gömul. Hún segir ekki of seint að skila skömminni en sjálf þagði hún í 43 ár og byrgði allt inni í sér þar til hafði neikvæð áhrif á líf hennar.

Fjallað var um frásögn Helgu á vef Fréttablaðsins og Eiríki Jónssyni. Hún deildi sögunni í opinni færslu á Facebook sem má sjá hér fyrir neðan.

Helga segir að atburðir síðustu daga, þar sem valdamiklir menn hafa ýmist stigið til hliðar eða verið vikið úr starfi vegna ásakana ungrar konu, hafi gersamlega sannfært hana um að henni beri að trúa þessum ungu konum.

Sjá einnig: Arnar Grant, Hreggviður og Ari hverfa á braut eftir ásakanir Vítalíu

Trúði ekki þolendum

Helga segist hafa áður ekki trúað ungum konum eins og aðrir af hennar kynslóð og haldið að þær væru að deila hræðilegum sögum til að fá athygli.

„Ég hef átt í orðaskaki við dætur mínar útaf þessari skoðun minni og eins og minni kynslóð er lagið, moka þessu undir sandinn.“

Fjölskyldufaðirinn sendi vini sína til hennar

Hún deilir sögu sinni af kynferðislegu ofbeldi sem gerðist þegar hún var au pair í Kanada hjá ríkri fjölskyldu. Hún var aðeins 16 ára þegar fjölskyldufaðirinn, sem var á fimmtugsaldri, fór að gefa henni undir fótinn. Þau hafi byrjað að sofa saman en fljótlega fór hann að senda vini sína til hennar og átti hún að þjónusta þá líka.

„Oft sendu þeir leigubíla eftir mér og ég for til þeirra. Þetta er bara stutta útgáfan en hún nægir.“

Hún veltir fyrir sér hvers vegna hún hafi ekki trúað þolendum þrátt fyrir niðurlæginguna sem hún upplifði sjálf.

„Hér skrifar miðaldra kona sem eftir atburði síðustu daga hefur gersamlega sannfærst um að henni beri að trúa þessum ungu konum. Í gegnum aldirnar hefur kynferðisofbeldi verið þaggað niður en nú koma fram ungar sterkar konur sem hafa ákveðið að tala.“

„Kæru kynsystur,
Ég er ein af þeim sem hef haft þá skoðun á þessum ungu konum sem hafa verið að koma fram með sínar hræðilegu sögur að þær hafi svona kannski mátt sjálfum sér um kenna. Þær hafi komið sér í þessar aðstæður og þetta væri bara gert til að fá athygli. Öll athygli er víst betri en engin. Ég hef átt í orðaskaki við dætur mínar útaf þessari skoðun minni og einsog minni kynslóð er lagið, moka þessu undir sandinn.
Hér er saga mín af kynferðislegu ofbeldi:

Ég er 16 ára á leið til Kanada, mikið spennt ég kem frá litlu þorpi úta landi og ætla að vera eitt ár sem aupair í Montreal.
Hjón með 2 börn, gyðingar og risastórt hús. Ég átti að ég hélt að passa börnin, taka á móti þeim úr skola og kannski hjálpa til við heimilisverkin.
Strax varð það þannig að ég þreif allt húsið, sá um uppvask þvotta og börnin að mestu leiti. Semsagt fullt starf. Fljótlega for húsbóndinn að venja komur sínar heim í hádeginu eldaði sér mat og gerðist mjög vinalegur við mig. Ég var einmana og hann las mig einsog opna bók. Byrjaði að taka utanum mig og eitt leiddi að öðru. Það var kannski liðinn mánuður og ( nú veit ég ekkert hvað ég á að segja) við vorum farin að stunda kynlíf. Ég taldi mig ástfangna af manni sem var á fimmtugsaldri og gat gert hvað sem hann vildi við mig. Fljótlega for hann að senda vini sína heim og ég átti að þjónusta þá líka. Oft sendu þeir leigubíla eftir mér og ég for til þeirra. Þetta er bara stutta útgáfan en hún nægir.
Klikkað….. en ekki svo því svona menn vita alveg hvað þeir eru að gera og finna veikleikana.

Hvernig get ég, með þessa reynslu sem ég hef mokað undir sandinn og leyft að hafa mjög neikvæð áhrif á mitt líf, hvernig get ég sem sjálf hef upplifað niðurlæginguna, sjálfsásökina og leyft þessu að hafa áhrif á allt mitt líf, hvernig get ég ekki trúað þessum ungu konum og hvatt þær áfram í baráttunni ?
Hingað til hafa konur leyft karlmönnum að beita sig kúgun og ofbeldi. Ég þekki mörg dæmi þess að fullorðnir karlmenn hafi misnotað ungar stúlkur, að ég tali nú ekki um stúlkur sem hafa leiðst úti neyslu af einhverjum ástæðum, oft þeim sem hér er talað um.


Ég vill ekki trúa því að þessir menn séu í eðli sínu vondir menn, fæstir allavega. En það er eitthvað að siðferðinu hjá sumum sem á þessu augnabliki segir þeim að þetta sé í lagi. Þetta þarf að laga og fyrsta skrefið er að tala um hlutina.

Hér skrifar miðaldra kona sem eftir atburði síðustu daga hefur gersamlega sannfærst um að henni beri að trúa þessum ungu konum.
Í gegnum aldirnar hefur kynferðisofbeldi verið þaggað niður en nú koma fram ungar sterkar konur sem hafa ákveðið að tala.
Frábært hjá þeim og áfram stelpur.

Þetta gætu jú verið mínar/þínar dætur !!“

Fleiri fréttir