Arnar Grant, Hreggviður og Ari hverfa á braut eftir ásakanir Vítalíu

Arnar Grant, einkaþjálfari í World Class, Hreggviður Jónsson, stjórnarformaður og aðaleigandi Veritas, og Ari Edwald, framkvæmdastjóri Ísey útflutnings, hafa allir brugðist við í dag eftir ásakanir Vítalíu Lazareva. Vítalía steig fram í hlaðvarpsþættinum Eigin konur á dögunum og lýsti ofbeldi sem hún sagðist hafa orðið fyrir, meðal annars í sumarbústaðarferð.

Hreggviður tilkynnti í dag að hann hefði ákveðið að stíga til hliðar úr stjórn fyrir­tækisins og stjórnum tengdra fyrir­tækja, í kjöl­far á­sakana Vítalíu Lazareva. Fyrr í dag var greint frá því að Ari Edwald, framkvæmdastjóri Ísey útflutnings, væri kominn í leyfi. Vísir greindi svo frá því að Arnar Grant væri kominn í leyfi frá störfum og vísaði Vísir í skriflegt svar frá Birni Leifssyni, eiganda World Class.

„Ég harma að hafa ekki stigið út úr að­stæðum sem ung kona hefur skýrt frá og fjallað hefur verið um í sumum fjöl­miðlum. Það er afar þung­bært að heyra um hennar reynslu. Ég lít þetta mál al­var­legum augum og þrátt fyrir að ég hafi ekki gerst brot­legur við lög þá mun ég stíga til hliðar úr stjórn Veritas og stjórnum tengdra fyrir­tækja til að raska ekki þeirra mikil­vægu starf­semi,“ sagði í yfirlýsingu frá Hreggvið í dag.

Vítalía lýsti atvikinu sem átti sér stað í sumarbústað í desember 2020 meðal annars á samfélagsmiðlum. Var Vítalía í sambandi með einum mannanna og lýsti hún atvikinu, sem hún sagði hafa átt sér stað í heitum pott meðal annars með þessum orðum:

„Þetta fór alveg yfir öll mörk sem hægt var að fara yfir. Fólk áttar sig ekki á því hversu stórt þetta var, margir halda að þetta hafi verið „bara“ þukl en þetta fór yfir öll mörk hjá öllum.“

Í fréttStundarinnar í dag kom fram að Ari Edwald hefði sjálfur óskað eftir því að fara í leyfi frá störfum. Haft var eftir Elínu Margréti Stefáns­dóttur, stjórnar­for­manni Ísey, að um tíma­bundna ráð­stöfun væri að ræða en fram­haldið myndi ráðast á næstunni.