Haukur stendur við stóru orðin: Þóknun fasteignasala á milli þess að vera há og svimandi há

Í síðustu viku skrifaði Haukur Viðar Alfreðsson, doktorsnemi í hagfræði, pistil sem vakti mikla athygli þar sem hann furðaði sig á því hversu lítið hafi farið fyrir umfjöllun um söluþóknanir fasteignasala, sem hann segir að séu ansi háar.

Hann hefur nú skrifað nýjan pistil á Vísi um sama mál þar sem hann stendur við stóru orðin.

„Fasteignasalar virðast hafa æði ólíka reynslu af því hvað það fara margar vinnustundir í að selja fasteign. Svörin eru allt frá því að vera þrjátíu klukkustundir að meðaltali auk bakvinnslu yfir í fjórar klukkustundir auk bakvinnslu. Þá fullyrða sumir að söluþóknanir séu oft um 1% (án vsk) en aðrir eru á því að raunin sé nær auglýstri gjaldskrá.“ skrifar Haukur.

Hann segir að án beinna gagna úr bókhaldi fasteignasala sé erfitt að segja um það með vissu og því óvíst hverjum eigi að trúa. Þó segir hann mjög einfalt að sjá tölurnar fyrir sér með næmigreiningu og í kjölfarið skoðar hann útreikninga.

Hann segir lægsta mögulega kostnaðinn við söluþóknunn vera um 800.000kr fyrir fjölbýli og 1.400.000kr fyrir sérbýli. Í kjölfarið fjallar hann um tímagjöld.

„Þannig er tíminn seldur á tæplega 20.000kr í allra versta falli fyrir fasteignasala, þar sem söluþóknun er í lágmarki, heil vinnuvika fer í hverja sölu og um fjölbýli er að ræða. Það tilfelli er þó talsvert langt fyrir ofan þær vinnustundir sem jafnvel svartsýnustu fasteignasalar hafa sagt mér, svo ef 136.500kr dekka ekki bakvinnsluna á einni sölu þá endurspeglar þetta tímagjald að fasteignasalinn aðstoði sjálfur í bakvinnslunni um tíu klukkustundir að auki. Hins vegar ef stök sala tekur styttri tíma en heila vinnuviku, sem allar líkur eru á, og/eða söluþóknun nálgast auglýsta gjaldskrá þá má sjá að tímagjaldið hækkar mjög hratt.“

Að lokum segir Haukur að honum þyki augljóst að alltaf séu rukkaðar háar fjárhæðir í söluþóknanir.

„Tímagjald fyrir söluþjónustu fasteignasala er á milli þess að vera hátt og upp í að vera svimandi hátt. Það er einfaldlega þannig að stór hluti útborgunar fyrstu kaupenda er að fara í sölu þóknun fasteignasala og útborguð mánaðarlaun ýmissa forstjóra myndu rétt ná að dekka greiðslur til fasteignasalans vegna sölu á sérbýli. Ég stend því heilshugar við fyrri orð um sjálftöku fasteignasala. Það er hins vegar margt annað sérkennilegt við svona söluferli og söluþóknanir sem vert er að skoða nánar.“