Haukur bendir á brjálaða staðreynd: Sjáðu hvað fasteignasalinn fær í þóknun fyrir hverja sölu

Haukur Viðar Alfreðsson, doktorsnemi í hagfræði, furðar sig á því hversu lítið hefur farið fyrir umfjöllun um söluþóknanir fasteignasala.

Haukur stingur niður penna í Morgunblaðinu í dag þar sem hann fjallar um söluþóknanir fasteignasala sem hækka samhliða hækkandi fasteignaverði án þess að þeir leggi á sig meiri vinnu.

„Fasteignaverð hefur hækkað gífurlega á seinustu árum og er því skiljanlega mikið í umræðunni. Ég hef þó ekki séð neina umfjöllun um söluþóknanir fasteignasala sem einhverra hluta vegna hækka með fasteignaverði án þess að vinnuframlag fasteignasala aukist. Þannig kostar skyndilega mun meira að selja sama húsnæði árið 2022 heldur en það gerði 2019, hækkun sem er langt umfram verðbólgu og almenna launaþróun,“ segir Haukur í grein sinni og gerir betur grein fyrir þessu.

Hann bendir á að meðal söluþóknun fasteignasala sé um 2,2% í einkasölu en 2,7% í almennri sölu. Við það bætast föst gjöld sem seljendur og kaupendur þurfa að greiða fasteignasalanum, samtals að meðaltali 136.500 krónur.

Hann bendir á að meðalkaupverð á eign í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hafi verið 63,6 milljónir króna og meðalstærð 97 fermetrar . Meðalkaupverð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hafi aftur á móti verið 115,3 milljónir króna og meðalstærð tæpir 207 fermetrar.

„Af þessu má ráða að meðalheildarsöluþóknun fasteignasala fyrir sölu á eign í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sé rúmlega 1,5 milljón krónur eða um 15.700 kr. á hvern seldan fermetra! Fyrir sölu á sérbýli er staðan lítið betri, meðalsöluþóknun er um 2,65 milljónir króna sem gera 12.800 kr. á fermetra. Jafnvel ef litið er á landið í heild er söluþóknunin tæplega 14.000 kr. á fermetra í fjölbýli og 10.000 kr. í sérbýli. Athugið að hér er miðað við eignir í einkasölu en ef salan væri almenn væru þessi verð umtalsvert hærri.“

Haukur veltir fyrir sér hvernig standi eiginlega á þessu og lái honum hver sem vill.

„Hvernig má það vera að söluþóknun til fasteignasala á hverja selda eign sé jöfn útgreiddum mánaðarlaunum forstjóra? Að söluþóknunin sé slík að ef hægt væri að stunda viðskiptin án fasteignasala væru hægt að skipta um öll gólfefni í húsinu og jafnvel innréttingar fyrir sama verð. Raunar er söluþóknunin slík að fasteignasalinn tekur til sín um einn fjórða af útborgun fyrstu kaupenda.“