Dagur með kvíðahnút þegar hann hitti Gunnar – Það var fljótt að breytast

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segist ekki muna betur en að hann hafi verið með einhvers konar kvíðahnút í maganum fyrst þegar hann gekk til fundar við Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóra í Kópavogi.

Útför Gunnars fer fram frá Lindakirkju í dag en Gunnar lést þann 14. júní síðastliðinn, 73 ára að aldri.

Sjá einnig: Útför Gunnars fer fram í dag: „Undir hrjúfu yfirborðinu bærðist mýkri lund en margir vissu“

Dagur minnist Gunnars með hlýjum orðum á Facebook-síðu sinni í dag og segir að hann hafi ekki verið neinn venjulegur maður.

„Ég man ekki betur en ég hafi verið með einhvers konar kvíðahnút í maganum þegar ég fór í fyrsta sinn til fundar við hann, nýorðinn formaður skipulagsnefndar borgarinnar. Fundarefnið var eitthvað löngu gleymt deilumál milli Reykjavíkur og Kópavogs. Gunnar hafði orð á sér fyrir að vera harðskeyttur og stóryrtur og gefa hvergi eftir. Kvíðinn tengdist því kannski að ég var í 75% fæðingarorlofi og með Heiðu nýfædda í burðarrúmi með á fundinum,“ segir Dagur í færslu sinni.

Hann rifjar upp að hann hafi einmitt byrjað fundinn á leggja burðarrúmið á milli þeirra tveggja á völdugt fundarborðið.

„Hafi Gunnar verið í ham áður en ég mætti þá blasti við mér bros og barnagæla. Þetta alkunna og nokkuð stórskorna andlit ljómaði einsog sólin. Og Heiða brosti á móti og málin leystust.“

Dagur segir að eftir þessi fyrstu kynni hafi þeir Gunnar alltaf átt gott samstarf.

„Reyndar hafði hann sjálfur orð á því að það væri miklu betra að eiga við mig en flokksfélaga sína í borginni. Við hlógum saman að því en það var líklega nokkuð til því. Gunnar fór stundum geyst og var kappsamur en kunni að meta skýr svör, hreinskilni og ákvarðanir frekar en einhvern óljósan lopa eða valdbeitingu. Síðast en ekki síst var Gunnar frábærlega giftur og votta ég Vigdísi og dætrum þeirra hjóna innilega samúð mína. Það er sannkallaður sjónarsviptir af Gunnari Birgissyni. Blessuð sé minning hans.“