Útför Gunnars fer fram í dag: „Undir hrjúfu yfirborðinu bærðist mýkri lund en margir vissu“

Útför Gunnars I. Birgissonar, fyrrverandi þingmanns og fyrrverandi bæjarstjóra í Kópavogi, fer fram frá Lindakirkju í dag. Gunnar varð bráðkvaddur á heimili sínu í Kópavogi þann 14. Júní síðastliðinn, 73 ára að aldri.

Fjölmargir minnast Gunnars í minningargreinum í Morgunblaðinu í dag og í þeim hópi eru samherjar hans úr Sjálfstæðisflokknum. Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og ritstjóri Morgunblaðsins, skrifar fallega um Gunnar.

„Gunnar Birgisson var þróttmikill og fjörugur í leik og starfi. Hann gaf hvergi eftir. Hann var góður bróðir í pólitísku starfi okkar en ekki endilega í leik. Fyrir því fann maður í skákinni. Stöðurnar mínar þar urðu snemma rjúkandi rúst og Gunnar fylgdi fast á eftir. En snerran varð að lúta lögmálum spennu svo að Gunnar leitaði sér því öflugri andstæðinga og mætti ég því iðulega afgangi á kvöldfundum í þinghúsinu forðum. Í hinu pólitíska starfi vorum við nær því að vera jafningjar og sáum æskilegar leiðir iðulega sömu augum, en ekki alltaf. Gunnar flutti rök sín af eðlislægum þrótti og það gat dugað til þess að endanleg niðurstaða varð nær hans sjónarmiðum en í hafði stefnt. En jafnvel þegar svo fór ekki urðu engin eftirmál og sjaldan endurteknar umræður um afgreidd mál. Gunnar var ekki með augun í baksýnisspeglinum.“

Davíð segir að Gunnar hafi verið kraftmikill og vinnusamur og það hafi verið happafengur fyrir Kópavog þegar hann varð bæjarstjóri.

„Það er gott að búa í Kópavogi,“ drundi í honum, eins og gera mundi úr tröllunum í fjöllunum og urðu óhagganleg sannmæli eftir því sem leið á tímann sem Gunnar hafði mest áhrif í bænum. Það varð sífellt betra að búa í Kópavogi. Og öllum sem þekktu til varð það ljóst að það var ekki síst vegna þess að Gunnar Birgisson stjórnaði því sveitarfélagi af óvenjulegum þrótti og sparaði sig hvergi,“ segir Davíð.

Einn sá duglegasti

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Gunnar hafi verið stór maður í öllum skilningi þess orðs.

„Hann var stórbrotinn karakter, stundum stórkarlalegur, hann gat haft sína fyrirferð og allir vissu hvar þeir höfðu hann. Að öðrum ólöstuðum er hann einhver duglegasti maður, sem ég hef kynnst; hann hafði unun af að vinna og féll helst aldrei verk úr hendi,“ segir hann og bætir við að hann hafi verið skarpgáfaður, orðið verkfræðingur og doktor í jarðvegsfræðum fullorðinn maður sem nýttist honum mikið í stjórnmálastörfum hans.

Bjarni minnist sérstaklega kosningabaráttunnar með Gunnari árið 2003 þegar Bjarni var að feta sín fyrstu spor í pólitík.

„Við gengum saman hús úr húsi í Smiðju- og Skemmuhverfinu í Kópavogi og tókum spjall við atvinnurekendur í ótrúlega fjölbreyttum rekstri. Þar var Gunnar sannarlega á heimavelli í fleiri en einum skilningi og okkur hvarvetna vel tekið. Hann gat verið allra manna skemmtilegastur, góður sögumaður og glöggur á fólk. Og undir hrjúfu yfirborðinu bærðist mýkri lund en margir vissu,“ segir hann.

Lék á als oddi skömmu fyrir andlát sitt

Ármann Kr. Ólafsson, núverandi bæjarstjóri í Kópavogi, segir að Gunnar hafi unnið frábært starf sem bæjarstjóri á sínum tíma. „Á þeim tíma sem hann sat í bæjarstjórn urðu miklar breytingar á Kópavogi þar sem íbúafjöldi sveitarfélagsins ríflega tvöfaldaðist, fór úr ríflega 16.000 í rúmlega 32.000. Óhætt er að segja að framtíðarsýn Gunnars og framkvæmdasemi hafi haft mikið að segja.“

Þorlákur Karlsson, mágur Gunnars, segir í minningarorðum sínum að Gunnar hafi verið mikil hamhleypa til verka og fer fögrum orðum um þann mann sem hann hafði að geyma.

„Ég hitti Gunnar í sumarbústað þeirra Vigdísar aðeins tveimur dögum fyrir andlát hans. Hann lék á als oddi þar sem hann ræddi um prófkjör Sjálfstæðisflokksins í „Kraganum“ og viðamikil nefndarstörf sem hann veitti forgöngu. Svo er Gunnar genginn – maður með doktorsgráðu í höfðinu og mold á höndunum. Nú fyrst er mér ljóst hversu mikilvægur þáttur Gunnar var í lífi mínu – nokkuð sem var aldrei nógsamlega þakkað.“

Fleiri skrifa minningarorð um Gunnar í Morgunblaðinu í dag, þar á meðal Halldór Blöndal, fyrrverandi þingmaður og ráðherra í Sjálfstæðisflokknum, Birkir Jón Jónsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og raunar mun fleiri.

Útför Gunnars fer sem fyrr segir fram frá Lindakirkju í dag klukkan 13. Hægt verður að fylgjast með útförinni í beinu streymi hér.