Bubbi biður Brynjar að hlífa sér: „Ekki eitthvað sem mig langar að sjá“

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens biður Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins, vinsamlegast um að hlífa sér.

Pistill Brynjars um ófarir sínar í ræktinni vakti talsverða athygli í gær, en þar mátti finna nokkuð ítarlegar lýsingar á nokkuð skondnu atviki sem átti að hafa gerst í sturtu eftir æfingu.

Sjá einnig: Baðvörðurinn sá ekki typpið á Brynjari

„Þetta var nú allt smá mál miðað við hremmingarnar þegar ég stóð allsber í sturtunni eftir allt erfiðið. Baðvörðurinn vatt sér að mér reiðilegur á svip að sagði mér að hypja mig umsvifalaust. Ég reyndi að malda í móinn en hann sagði að þeir sem væru með svona brjóst og ekki typpi svo séð verði ættu að vera í kvennaklefanum. Nú skil ég betur þá sem eru að berjast fyrir kynlausu búningsklefunum,“ sagði Brynjar og uppskar hlátur margra fylgjenda sinna á Facebook.

Bubbi tjáir sig um pistilinn á Twitter-síðu sinni en hann og Brynjar hafa eldað grátt silfur saman að undanförnu, meðal annars í tengslum við umræðuna um heiðurslaun listamanna. Bubbi er frekar stuttorður og segir um pistilinn:

„Brynjar Níels nakinn á typpinu. Sá pistil eftir hann. Það er ekki eitthvað sem mig langar að sjá.“