Brynjar spurði blaðamann hvort hún vildi vita hvað hann „gerði það“ oft í viku og í hvaða stellingum

Það virðist hafa farið nokkuð í taugarnar á þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Brynjari Níelssyni, þegar blaðamaður fréttastofu Vísis, Hólmfríður Gísladóttir, sendi honum fyrirspurn fyrr í vikunni um hvort hann ætlaði að láta bólusetja sig. Hólmfríður ræddi samskipti sín og þingmannsins í Bítinu á Bylgjunni í gærmorgun.

Þegar Brynjar svaraði ekki fyrsta tölvupóstinum kveðst Hólmfríður hafa sent honum ítrekun daginn eftir. Þá hafi Brynjar svarað með þjósti, eins og hann segir sjálfur, og spurði hana hvurslags hnúsni þetta væri. Hólmfríður segist hafa tekið því þannig að Brynjar væri að einhverju leyti að grínast, þó hún gerði sér grein fyrir því að hann vildi ekki svara spurningunni og sendi honum póst til baka.

„Ég ákvað að svara bara á sömu nótum, hélt hann væri að djóka sko, og sagði bara: „Hvað er þetta Brynjar, þú ert kjörinn þingmaður. Þú átt ekkert einkalíf,“ segir Hólmfríður. „Þá allt í einu fer hann að taka þessu svona rosalega alvarlega eins og virðist vera. Við skulum taka það fram að Brynjar Níelsson á alveg einkalíf.“

Hefur engan áhuga á kynlífi Brynjars

Hún hélt svo áfram og segir að Brynjar hafi spurt hana hvort hún vildi líka fá að vita hvernig kynlífi hann lifði:

„Og mig langar ekkert að vita, eins og hann spurði mig svo hvort ég vildi vita, hvað hann gerir það oft í viku og í hvaða stellingum. Hann svarar mér þannig.“

Hún segir að sér þyki þetta alvarlegt mál. Að Brynjar hafi tjáð sig um samskipti sín við blaðamann á Facebook og gert honum upp einhverjar annarlegar kenndir. „Þetta er ekki alveg í lagi,“ segir Hólmfríður.

Hún segir einnig merkilegt að Brynjar hafi rætt þessi mál fjálglega við Björn Inga á Viljanum síðasta nóvember og við Heimi Karlsson og Gunnlaug Helgason, einmitt í Bítinu á Bylgjunni, daginn áður. Hann hafi hins vegar ekki viljað ræða málin við sig. Spurð hvort hún sé að meina að Brynjar hafi ekki viljað tala við hana og svarað henni eins og hann gerði vegna þess að hún er kona sagði Hólmfríður „Kannski er ég að meina það.“

„Eru engin takmörk fyrir því hvað hægt er að leika mikil fórnarlömb?“

Brynjar tjáði sig svo aftur á Facebook um málið í gærkvöldi:

„Nú er svo komið að blaðamenn þora ekki að spyrja mig um nokkurn skapaðan hlut af ótta við að ég taki hárblásarann á þá. Hef heimildir fyrir því að geðvonskuköst mín valdi kvíða hjá blaðamönnum og þyki líkleg að leiða til kulnunar í starfi,“ skrifar hann.

Hann segir það ekki trufla sig þegar blaðamenn spyrji hann um persónuleg mál hans, þeir geri það reglulega og stundum fari hann í viðtöl beinlínis í þeim tilgangi að ræða persónuleg mál. „En þegar blaðamenn senda mér tölvupóst og ætlast til þess að ég svari slíkum spurningum á grundvelli þess að ég sé þingmaður (og þar með afsalað mér friðhelgi einkalífs) tek ég fram hárblásarann á vægri stillingu.“

Nú er svo komið að blaðamenn þora ekki að spyrja mig um nokkurn skapaðan hlut af ótta við að ég taki hárblásarann á þá....

Posted by Brynjar Níelsson on Friday, 15 January 2021

Hann segir þá að Hólmfríður hafi „ekki náð neinum þræði“ í frásögn sinni í Bítinu. „Og virðist sem tölvupóstsamskipti okkar hafi verið eintómur misskilningur, líklega vegna ólíkrar kímnigáfu eða skorti á henni. En blaðamaðurinn, sem er kona, kom með vinsæla skýringu á geðvonskukasti mínu. Það er auðvitað vegna þess að hún er kona.“

„Eru engin takmörk fyrir því hvað hægt er að leika mikil fórnarlömb? Veit að ég get verið truntulegur en þar sem ég er raunverulegur jafnréttissinni hef ég passað sérstaklega upp á að vera jafn truntulegur við bæði kynin,“ heldur hann áfram.

„Svo ætla ég að nota tækifærið og koma eftirfarandi skilaboðum til blaðamanna, af báðum kynjum, hyggist þeir senda mér spurningar á tölvupósti: Ef ég svara ekki er það vegna þess að ég ætla ekki að svara. Ef þið sendið ítrekun og krefjist svars því ég sé þingmaður án einkalífs fáið þið hárblásarann beint í smettið. Getur að vísu farið eftir því hvernig liggur á mér hverju sinni.“