Brynjar segir Stefán hafa hlaupið á sig en Stefán svarar: „Farðu bara að grenja“

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Stefán Ingvar Vignisson, uppistandari og bakþankahöfundur Fréttablaðsins, hafi hlaupið á sig í grein í blaðinu í gær.

Hringbraut fjallaði um pistil Stefáns og vakti greinin talsverða athygli. Þar hjólaði hann í mann og annan, til dæmis Brynjar, Jordan Peterson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

Brynjar tjáði sig um pistilinn á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi og sagði að Stefán Ingvar hefði verið með uppistand í blaði gærdagsins.

„Hann áttar sig ekki á því, frekar en Kristinn Hrafnsson, að það fer aldrei vel að vera með uppistand þegar menn eru í fullkomnu ójafnvægi. Þá fer allt fyrir ofan garð og neðan.

Stefáni finnst, eins og flestum vinstri mönnum, að þeir sem eru ósammála þeim séu hættulegir menn. Þeir eiga því að fara til andskotans. Þetta hljómar kunnuglega í eyrum þeirra sem muna tímana tvenna,“ segir Brynjar sem hefur marga fjöruna sopið.

„Nú um stundir er kanadískur prófessor, Jordan Peterson að nafni, hættulegasti maður sem fyrirfinnst. Afskaplega rökfastur maður sem bendir oftast á það augljósa og þær hættur sem vestrænu lýðræði stafar af pólitísku ofstæki og rétthugsun. Næst hættulegasti maðurinn er miðaldra karl á fésbókinni, sem er aðstoðarmaður ráðherra og engu ræður. Hann fengi ekki Trabant ef Stefán Ingvar fengi einhverju ráðið. Og þyrfti örugglega að sæta geðrannsókn að auki.“

Stefán var ekki lengi að bregðast við þessum orðum Brynjars sem voru endurómuð í frétt DV af málinu í gærkvöldi: