Björk þurfti að borga sex milljónir: Hljóðið þungt þegar útibússtjóri bankans hringdi

Björk Eiðsdóttir, ritstjóri helgarblaðs Fréttablaðsins, lýsir ótrúlegri reynslu sinni í leiðara Fréttablaðsins í dag. Undanfarið hefur verið fjallað nokkuð um uppgreiðslugjald Íbúðalánasjóðs og sagði Hringbraut til að mynda í gær sögu Signýjar Jóhannesdóttur.

Björk segir í leiðara sínum að hún hafi hafið sambúð með manni árið 2017, en fyrir áttu þau hvort sína eignina sem ákveðið var að selja og sameinast um eina nýja eign.

Eitt það hæsta sem hann hafði heyrt um

„Draumaeignin fannst og þá var farið að reikna, hvað væri til í útborgun og hvað þyrfti að taka til láns. Á eign konunnar þar sem hún hafði búið með börnum sínum var áhvílandi óhagstætt Íbúða­lánasjóðs lán frá árinu 2008. Frá upphafi var borðleggjandi að það lán yrði látið fjúka enda húsnæðislánamarkaður allt annar og boðlegri en tíu árum áður og meirihluti kaupenda fyrir löngu búinn að snúa baki við Íbúðalánasjóði,“ segir Björk.

Hún segir að bankinn hafi fengið fyrirmæli um að greiða það lán upp. Björk segir svo að þegar bankastjóri útibús þess sem vann greiðslumatið hafði samband var hljóðið í honum þungt – uppgreiðsluverð lánsins var nefnilega eitt það hæsta sem hann hafði heyrt um.

„Svo hátt að það kallaði á símtal, eða tæpar sex milljónir króna! Það kostaði sem sagt sex milljónir króna að greiða upp lán sem upphaflega var rúm 21 milljón og greitt hafði verið af í áratug.“

„Ég bara skil þær ekki sjálfur“

Björk segir að uppgreiðslugjald sé eitt en á bak við þennan fjármálagjörning hafi verið innbyggður óvissulþáttur.

„Í raun var sá þáttur svo óskiljanlegur að þegar umrædd kona sat andspænis lögfræðingi Íbúðalánasjóðs, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og bað hann að skýra fyrir henni forsendurnar, horfði hann á blek á blaði og svaraði: „Ég bara skil þær ekki sjálfur.“ Þess ber að geta að þetta lán með uppgreiðslugjaldi bar 5.30% vexti á meðan lán án uppgreiðslugjalds bar litlu hærri vexti eða 5.55% svo augljóslega var alltaf eftir litlu að seilast en varð síðar dýru verði keypt.“

Björk bendir svo á að í fyrra hafi héraðsdómur komist að þeirri niðurstöðu í tveimur málum að svokölluð uppgreiðsluþóknun Íbúðalánasjóðs hefði verið ólögmæt.

„Málunum var áfrýjað, fengu þau flýtimeðferð og sýknaði Hæstiréttur í öðru þeirra en hinu var vísað aftur til meðferðar í héraði. Nýverið sýknaði héraðsdómur svo Íbúða­lánasjóð í því máli.“

Hún segir lögbrot að birta ekki í lánasamningi ákvæði um hvernig uppgreiðslugjald skuli reiknað út. „Nú virðist aftur á móti staðfest að þegar lánveitandinn er ríkið sjálft hefur það engar afleiðingar. Það eru vissulega milljarðar í húfi fyrir íslenska ríkið en líka ansi stór hluti aleigunnar fyrir marga þegna þess,“ segir Björk sem endar leiðara sinn á þessum orðum:

„Þetta er aðeins ein margra svipaðra sagna, hún er dagsönn og þessi kona er ég. Þessar sex milljónir voru greiddar, með fyrirvara, því varla fengi svo óréttlátur gerningur að standa. En, hann stendur.“