Bergur lýsir ótrúlegu máli: Skipað að brjóta niður veggi sem hann átti ekki – Sektaður um 1,2 milljónir

Bergur Hauksson, lögmaður manns sem stundar atvinnurekstur í Hafnarfirði, lýsir býsna ótrúlegu máli umbjóðanda síns í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar gagnrýnir Bergur framfang bæjarins, og þá einna helst byggingafulltrúans harðlega en þetta er ekki í fyrsta sinn sem byggingafulltrúinn fær að kenna á því.

Hringbraut sagði frá baráttu Guðmundar Víglundssonar, véltæknifræðings og framkvæmdastjóra Tæknimáls ehf., við bæinn í desember síðastliðnum, en dagsektir voru lagðar á fyrirtæki hans vegna tveggja gáma sem voru á lóð fyrirtækisins. Dagsektirnar voru síðar felldar úr gildi eftir harða baráttu Guðmundar.

Bergur segir frá sambærilegu máli í Morgunblaðinu í dag, máli sem að líkindum mun enda fyrir dómstólum.

„Aðili sem lenti í svipuðu máli gegn Hafnarfjarðarbæ bað undirritaðan að gera grein fyrir hans máli þar sem svona ólögmæt stjórnsýsla á ekki að líðast,“ segir Bergur í grein sinni en umræddur aðili á tvö svokölluð bátaskýli við Lónsbraut í Hafnarfirði.

„Þegar hann keypti bátaskýlin var búið að steypa veggi á lóð í eigu Hafnarfjarðar fyrir utan lóðir bátaskýlanna og voru veggirnir alveg upp að lóðum bátaskýlanna. Hafnarfjörður virðist ekki vita hvenær umræddir veggir voru reistir en veit þó að þeir hafa verið þarna frá að minnsta kosti 2005 vegna þess að þá var minnst á þá í máli sem var rekið fyrir forvera ÚÚA og Hafnarfjörður var aðili að því máli.“

Bergur segir að í febrúar á nýliðnu ári hafi eiganda lóðanna farið að berast erindi frá byggingarfulltrúa um að honum bæri að fjarlægja umrædda veggi. Að sögn Bergs vissi eigandinn varla hvernig hann átti að snúa sér í málinu vegna þess að umræddir veggir voru ekki á hans vegum. Hann ákvað þó að benda byggingarfulltrúa á að þessir veggir hefðu ekkert með hann að gera, hann hefði ekki reist þá, né væru þeir á hans lóð.

„Málinu lauk þó ekki með þessari ábendingu hans. Byggingarfulltrúi hélt áfram að krefjast þess að hann fjarlægði umrædda veggi. Veggi sem höfðu staðið í að minnsta kosti 15 ár. Í september 2020 barst svo eigandanum bréf frá byggingarfulltrúa þar sem settar voru á hann dagsektir kr. 20.000 á dag fyrir hvora lóð ef hann fjarlægði ekki umrædda veggi. Byggingarfulltrúi hafði sem sagt sett á eiganda bátaskýlanna dagsektir sem námu kr. 1.200.000 á mánuði ef hann fjarlægði ekki umrædda veggi sem voru ekki á hans lóð og hann hafði ekki reist,“ segir Bergur en það var þá sem eigandinn hafði samband við hann og bað um aðstoð.

„Á þessum tímamótum leið eigandanum verulega illa vegna þess að hann var komin í aðstöðu sem mætti kalla catch 22. Hann gat ekki brotið niður umrædda veggi vegna þess að þeir voru ekki á hans lóð og hann átti þá ekki og þeir voru auk þess á friðuðu svæði. Vegna þessara veggja sem hann hafði ekkert með að gera voru settar á hann dagsektir ef hann fjarlægði ekki veggina sem hann átti ekkert í.“

Svo fór að ákveðið var að biðja byggingarfulltrúa um fund og var á þeim fundi útskýrt með teikningum það sem byggingarfulltrúi hefði átt að vita, þ.e. að umræddir veggir hefðu ekkert með eigandann að gera og væru utan lóða hans. Bergur segir að þetta hafi komið byggingarfulltrúanum á óvart sem ákvað að senda mælingamann sem síðan staðfesti frásögn eigandans. Segir bergur að þá hafi verið álitið að málið yrði láti niður falla, en svo var ekki.

„Þá átti eigandinn enga aðra kosti en að kæra málið til ÚÚA. Áður en málið var kært til ÚÚA var Hafnarfjarðarbæ sent bréf þar sem gerð var grein fyrir því að augljóst væri að um gáleysi væri að ræða hjá Hafnarfjarðarbæ og gerð yrði krafa á Hafnarfjarðarbæ vegna þess tjóns sem eigandi lóðanna yrði fyrir, vegna þessa gáleysis Hafnarfjarðarbæjar, ef hann þyrfti að kæra málið til ÚÚA. Hafnarfjarðarbær gaf sig ekki þrátt fyrir varnaðarorð. Niðurstaða í máli ÚÚA kom ekki á óvart. Dagsektir voru felldar úr gildi og vinnsla Hafnarfjarðar á málinu talin vera haldin annmörkum. Með öðrum orðum galli var á afgreiðslu málsins hjá Hafnarfjarðarbæ og það felur í sér gáleysi eins og Hafnarfjarðarbæ hafði verið bent á en Hafnarfjörður ákveðið að láta þau varnaðarorð sem vind um eyrun þjóta.“

Bergur segir að bæjarstjóra Hafnarfjarðar hafi verið sent bréf vegna þessa gáleysis, enda bæjarstjórinn og bæjarstjórnin sem bera ábyrgð á rekstri bæjarins.

„Bæjarstjóranum var gerð grein fyrir því að vegna þessa gáleysis Hafnarfjarðar hafði eigandinn orðið fyrir tjóni sem og óþægindum. Í bréfinu til bæjarstjórans var þess krafist að bærinn greiddi eigandanum það tjón sem Hafnarfjarðarbær olli honum með saknæmum og ólögmætum hætti. Ekki þarf að hafa frekari orð um svar bæjarstjórans vegna þess að það barst ekki svar. Af því má ráða að bæjarstjórinn telji þessa afgreiðslu bæjarins eðlilega. Bærinn telur það eðlilegt að krefjast þess að tiltekinn aðili brjóti niður mannvirki sem er utan hans lóða og aðilinn hefur ekki reist.“

Bergur segir að lokum að sem betur fer búum við í ríki sem telur slíkt ekki eðlilegt. Þar sem Hafnarfjarðarbær svaraði ekki erindi hans eigi hann enga aðra kosti eftir, vegna þess tjóns sem bærinn olli, aðra en dómstóla. Endar hann grein sína á þessari spurningu: „Hvers vegna er stjórnsýslan með þessum hætti?“