Anna Sig­rún skýtur á Pál: „Sið­blindir játa sig eðli máls sam­kvæmt aldrei sem slíka“

Anna Sigrún Baldursdóttir, fyrrverandi aðstoðarkona Páls Matthíassonar, fráfarandi forstjóra Landspítalans, og núverandi framkvæmdastjóri skrifstofu forstjóra Landspítalans, ritaði beittan bakþanka í Fréttablaðinu í morgun. Þar blandar hún sér óbeint í þá umræðu sem skapast hefur út frá pistli Páls Vilhjálmssonar um geðsjúkdóm Helga Seljan. Anna lætur Pál fá það óþvegið, án þess þó að nefna hann á nafn.

„Geðraskanir eru ýmiss konar og hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda. Þeirra er meðal annars getið á papírus Fornegypta og ástandi geðsjúkra er lýst í ritum Forngrikkja. Meðferð og viðhorf til geðraskana tengjast menningu samfélaga og eru líklega einn ágætasti mælikvarði á gæði þeirra, en talið er að allt að fjórðungur mannkyns glími við geðröskun einhvern tíma á ævinni,“ skrifar Anna.

Nokkrar af helstu frelsishetjum okkar tíma höfðu sinn djöful að draga: „Margar helstu persónur mannkynssögunnar hafa glímt við geðraskanir af ýmsu tagi. Hér má til dæmis nefna Abraham Lincoln, Winston Churchill og Martin Luther King Jr. sem allir voru þunglyndar frelsishetjur, horfðust í augu við sjúkdóminn en voru drifnir áfram af krafti sannfæringar um mannlega reisn. Þeir deildu einnig algengu persónueinkenni þunglyndra; djúpri samkennd (e. empathy) með öðru fólki,“ segir Anna.

Hún segir skilning á geðröskunum hafa aukist og fordómar minnkað í takt við það. Þó er sigurinn ekki unninn: „Við eigum sannarlega nokkuð í land í meðferð geðraskana eins og raunar ýmsum öðrum heilbrigðisvandamálum, en síðustu áratugina hafa orðið stórstígar breytingar til batnaðar. Sömuleiðis hefur yfirgnæfandi meirihluti samfélagsins náð betri skilningi á þessum sjúkdómum og fordómar minnkað. Þannig telja fæstir að skömm eða sérstakar starfshindranir eigi að fylgja geðsjúkdómi frekar en öðrum sjúkdómum, umfram það sem meðferð kann að krefjast.“

Anna segir siðblindu eitthvað annað og miklu verra heldur en geðraskanir á borð við þunglyndi: „Því miður hefur ekki sami meðferðarárangur náðst alls staðar. Þannig er til dæmis siðblinda ólæknanleg en hún er alvarleg persónuleikaröskun, sem hefur einnig fylgt mannkyninu lengi og er tíðnin talin vera 0,5-1%. Siðblinda einkennist af skorti á samúð og samkennd, sjálfhverfu og kaldlyndi. Greind siðblindra og félagslegir hæfileikar villa gjarnan um fyrir samferðafólki og því komast þeir oft til áhrifa í samfélaginu og hasla sér völl.“

Hún setur punktinn við pistilinn með þessu: „Siðblindir játa sig eðli máls samkvæmt aldrei sem slíka.“