Ágúst Borgþór lýsir 12 daga Covid veikindum: „Heitasta helvíti“

Ágúst Borg­þór Sverris­son, rit­höfundur og frétta­stjóri DV, er loks orðinn frískur eftir að hafa smitast af kórónaveirunni. „Ég var veikur af Covid í 12 daga og nokkrir af þeim dögum voru heitasta helvíti,“ segir Ágúst á Facebook síðu sinni.

„Það voru síðustu veikindadagarnir. Blanda af háum hita, magaverkjum og ógleði, og kvefi, fór illa í mig og þessu fylgdi óvissa um framhaldið.“ Síðastliðinn föstudag hafi ástandið farið að skána og síðustu helgi hafi heilsan snúið aftur. „Síðan hefur leiðin legið upp á við.“

Smitaðist á barnum

Líkt og fjallað hefur verið um á Hringbraut greindist Ágúst með Covid-19 17.apríl síðastliðinn og þurfti að dvelja á sóttvarnarhótelinu við Rauðarárstíg. Í sam­tali Hring­braut sagði Ágúst að lík­lega hafi hann orðið fyrir snerti­smiti á Ís­lenska barnum föstu­daginn 9. apríl.

„Á sunnudag verð ég fluttur heim,“ skrifar fréttastjórinn spenntur. „Ég hlakka mikið til þess dags og til væntanlegrar útiveru. Ég þarf hins vegar að passa mig því samkvæmt bókinni er ég mögulega smitandi, þó að mér þyki það skrýtið.“

Eiginkona Ágústs, Erla Kjartansdóttir, náði sér einnig í veiruna og hefur enn ekki náð fullum bata. „Erla er því miður aðeins á eftir mér en hún er á ellefta degi veikinda. Við vonumst til að hún sé að verða frísk.“

Ágúst kveðst hlakka til að snúa aftur heim. „Ég er endanlega laus allra mála um miðjan maí.“

Ég var veikur af Covid í 12 daga og nokkrir af þeim dögum voru heitasta helvíti. Það voru síðustu veikindadagarnir....

Posted by Ágúst Borgþór Sverrisson on Wednesday, April 28, 2021