Ágúst Borgþór með COVID-19: Smitaðist líklega á Íslenska barnum

„Ég skal alveg viðurkenna það að ég hélt að Covid væri bara eitthvað sem kæmi fyrir aðra og grunaði aldrei að ég ætti eftir að smitast af þessari veiru,” segir Ágúst Borgþór Sverrisson, rithöfundur og fréttastjóri DV, í samtali við Hringbraut.

Ágúst Borgþór dvelur nú á sóttvarnarhóteli við Rauðarárstíg eftir að hafa greinst með COVID-19 eins og margir aðrir Íslendingar undanfarna daga. Ágúst nefnir að hann hafi farið varlega undanfarna mánuði og ekki farið til útlanda síðan í ársbyrjun 2020. Þá hitti hann nánast aldrei fólk sem er að fara á milli landa og fari almennt ekki mjög víða um.

Snertismit á Íslenska barnum

Aðspurður segir Ágúst að í augnablikinu bendi allt til þess að hann hafi orðið fyrir snertismiti inni á Íslenska barnum föstudagskvöldið 9. apríl. Það er þó ekki alveg fullsannað en svo virðist vera sem nokkrir gestir sem sóttu Íslenska barinn umrætt kvöld hafi smitast af einstaklingi sem var þar inni og virti ekki reglur um sóttkví.

„Daginn áður fór ég á Hornið í hádeginu og ég fór á einhver kaffihús og í bókabúð í vikunni. Ég hef verið í sumarfríi allan mánuðinn og því ekki farið í vinnuna. Ég hef mest haldið mig heima,“ segir hann.

Hélt að hann hefði tognað

Fyrir sléttri viku, mánudaginn 12. apríl, fór hann með eiginkonu sinni í sumarbústað í Miðhúsaskógi.

„Á þriðjudagskvöldinu varð ég fyrir óvenjulegri upplifun, þá fékk ég mikla vöðvaverki í aftanverð læri og átti erfitt með svefn. Þetta endurtók sig á miðvikudagskvöldið. Ég hélt að þetta væri tognun. Ég tók íbúfen og við það hurfu verkirnir og komu ekki aftur.“

Það var svo á fimmtudag að einkenni kvefs gerðu vart við sig og á föstudagskvöldið var hann kominn með hita.

„Ég fór í skimun á laugardaginn í hádeginu og allan þann dag á meðan ég beið eftir svari, taldi ég líklegt að þetta væri eitthvað annað en Covid,“ segir Ágúst sem er ekki vanur að kveinka sér eins og þeir sem til hans þekkja vita. Segist Ágúst telja að hann hafi síðast tekið veikindadag í vinnu árið 2005.

„Eftir að niðurstaðan lá fyrir var ljóst að ég gat ekki verndað mína nánustu fyrir mér heima og lét því aka mér á sóttvarnarhótelið við Rauðarárstíg. Það var afar sérkennilegt að koma hingað á laugardagskvöldið. Ég hef aldrei áður komið á Rauðarárstíg sem ófrjáls maður en árum saman vandi ég komur mínar á kaffihús sem var hér einu sinni,“ segir hann.

Hressari og orkan að koma aftur

Spurður um helstu einkenni síðustu daga segir hann að þau hafi aðallega verið í formi kvefs og orkuleysis. Hann kveðst ekki vita hvort hann sé með hita enda tók hann ekki hitamæli með sér. „Ástandið hefur batnað dag frá degi og ég er hressari í dag en ég var til dæmis á föstudag eða laugardag. Orkan er að koma dálítið aftur.“

Ágúst segir að hann hafi að öllum líkindum smitað eiginkonu sína en hún fékk þó neikvætt út úr fyrstu skimun. „Hún er með einkenni og bíður niðurstöðu annarrar skimunar.“

Þegar Ágúst er spurður um dvölina á sóttvarnarhótelinu segir hann að þjónustan sé góð. Það sé samt ekki mjög uppörvandi tilhugsun að eiga eftir að vera inni í þessu litla herbergi út mánuðinn. „Líklegt er að konan komin hingað og eyði sinni einangrun með mér, nema svo ólíklega vilji til að hún hafi sloppið. Maturinn er góður en matarlyst mín hefur minnkað, sem er reyndar heppilegt, því ég er ekki að fara að brenna miklu hér. Kaffið er hins vegar hræðilegt en ég þræla því í mig.“

Með fullan ísskáp af allskonar bjór

Ágúst segist ekki hugsa langt fram í tímann núna, ekki finna fyrir kvíða og væntir þess að ná sér fljótt og örugglega. Hann er þó meðvitaður um að glíman geti verið löng hjá sumum. „Ég hef þegar ákveðið að fara um Rauðarárstíginn á reiðhjóli um leið og ég losna úr prísundinni. Litlu hlutirnir fá aukið vægi þegar maður missir frelsið.“

Ágúst, sem vakið hefur athygli fyrir snörp fréttaskrif á undanförnum árum, er skráður á helgarvakt á DV.is þann 1. maí næstkomandi og þá verður einangrun hans lokið.

„Ég býst fastlega við því að setjast þá við fréttaskrif fyrir DV.is. Það verður gleðidagur. Annars er mér efst í huga þakklæti til fólks sem hefur sýnt mér samhug í þessum aðstæðum, sent mér kveðjur og jafnvel glaðning í lobbíið. Ég er til dæmis með fullan ísskáp af allskonar bjór sem ég er ekki byrjaður að smakka.“