Vilja ekki skilja krakkana eftir með vandamál heimsins á herðum sér

Ísgerður Gunnarsdóttir krakkafréttamaður mælir með því að Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra skrifi pólitískt hlutlausa frétt um Berlínarmúrinn.

Aðdragandi málsins er sá að í Krakkafréttum þann 11. nóvember síðastliðinn var fjallað um það að 30 ár séu liðin frá falli Berlínarmúrsins. Í kjölfar þess sagði Björn Bjarnason í grein í Morgunblaðinu að ásetningur Krakkafrétta hefði verið að „færa söguna í nýjan búning.“

Í morgunblaðinu í dag svarar Ísgerður Birni og segir að Krakkafréttir leggi sig fram við að skýra fréttir á þann hátt að þau skilji krakkana ekki eftir með vandamál heimsins á herðum sér.

„Það er flókið og vandmeðfarið hlutverk að einfalda fréttir fyrir börn, ekki síst þegar þær fjalla um viðkvæm og/eða pólitísk málefni. Eitt af því sem við leitumst við að gera er að skýra fréttir á þann hátt að við skiljum krakkana ekki eftir með vandamál heimsins á herðum sér. Þetta gerum við til dæmis með því að enda alvarlegar fréttir á einhverju jákvæðu, eins og hverjir séu að hjálpa eða reyna að laga það ástand sem fréttin fjallar um,“ segir Ísgerður.

Hún greinir frá því að hver krakkafrétt sé um eina mínútu að lengd sem þýði það að stór hluti starfsins sé að ákveða hverju fréttamennirnir eiga að sleppa.

„Þegar við nefnum hugtök þarf að fylgja þeim skýring þar sem við gerum aldrei ráð fyrir að áhorfendur okkar viti fyrir fram hvað þau þýða. Stundum verður það til þess að við sleppum því að nefna einhver hugtök eða umorðum ef við höfum ekki tíma til að útskýra þau líka,“ segir hún og tekur fram að hún skilji vel að skiptar skoðanir séu á því hvað koma eigi fram í slíkum umfjöllunum.

„Á hinn bóginn átta ég mig ekki á því hvaða hag við í Krakkafréttum ættum að hafa af því að reyna að „færa söguna í nýjan búning“ og það var svo sannarlega ekki ásetningurinn í fréttinni um Berlínarmúrinn,“ segir hún.

Hún segist glöð að vita til þess að Björn horfi á Krakkafréttir og að hann láti sig þær varða.

„Fyrir Björn og aðra þá sem mögulega eru ósáttir við fréttina mæli ég með því að prófa að skrifa pólitískt hlutlausa frétt um þetta fyrir börn, þar sem allt sem þið mynduð vilja að kæmi fram í henni komi fram með 130-150 orðum.“