Viðbjóðslegt útvarpsefni og vitsmunalegt gjaldþrot

Umburðarlyndi mitt er víðfrægt. Fáir eru í stöðuglyndi mínir jafningjar. Fátt ærir mig og ekkert kemur mér úr jafnvægi eða skekur mitt góða skap. En ég er ekki gallalaus þrátt fyrir að almenningur telji það (sem auðvitað vottar ekki annað en flórheimsku lýðsins) og tvennt er það í heimi sem getur gert mig brjálaðri. Tekið vit mitt út á nafir og snasir og fram af - ef ekki eru teknar réttar mixtúrur. Hér á ég við hinn harmþrungna lestur á jólakveðjum í Ríkisútvarpinu, sem líklega er viðbjóðslegasta útvarpsefni enn upp fundið (og útvarpið að deyja) og svo er það hitt; bévað árámótaupprifjunarfárið.

Hafi djöfullinn einhverja reglu á því að birtast mannheimi og ganga samkvæmt dagskrá í sálir manna, tímabundið, er það þegar hann hreiðrar um sig í kroppum fjölmiðlamanna um víða veröld sem dæla yfir mann upprifjun á liðnu ári. Ári sem aldrei hefur verið nema slæmt. Samantekt á óáran er undarlegt, vægt til orða tekið, afþreyingarefni, ekkert skemmtiefni og lítt fallið til forvarna (eins og dæmin sanna). Það að velta sér upp úr því hvað gerst hefur, síðustu vikurnar, lýsir engu nema vitsmunalegu gjaldþroti. Það að leggja heilu og hálfu dagblöðin undir svona minnipoka „sagnfræði“ og vinna þætti sem slaga hátt í mannsævi í ljósvakamiðlum um sama tittlingaskít gerir ekkert nema staðfesta hnignun mannkyns – og er það þá eina gagnið af skruminu. Og finnst fólki þörf á því að vita sem allir vita og fræðast um það árlega?

Ef Eyrbekkingar sjá mig rása yfir sjóvarnargarðinn, niður fjöruna, út á sker og halda svo í suður út á urrandi hafið, fótgangandi, þá bið ég þá láta vera að gera „næstu strandstöð Landsímans viðvart strax“. Þá bara vil ég fara – ekki fótgangandi á hinn pólinn til þess að fá um mig fréttir og fréttaupprifjanir, heldur fara út úr þessum heimi sem er ekki annað en hroðalestur á jólakveðjum og upprifjun á, jafnvel þeim sömu kveðjum, í algeru og viðvarandi tíðindaleysi og heimsku. Við vitum öll hvað gerðist á árinu, við munum það – og við viljum vera laus við það!

Ef ekki, þá fargið ykkur!

Höfundur er rithöfundur og djákni