Við höfum ræktað þessa skúrka: „við leyfðum þeim allt og meira. þeir launuðu okkur með undirferli og fiffi“

„Við gáfum þeim kvótann, við gáfum þeim áratugi, við gáfum þeim ríkisstjórnir, við gáfum þeim ráðherra sjávarútvegs, manninn sem þekkir manninn, manninn sem veit að hann þarf ekki að fá borgað fyrir að þekkja manninn af því hann veit að það borgar sig að þekkja manninn.  [...] Við höfum ræktað þessa skúrka og leyft þeim að ráða hér öllu. Nú launa þeir okkur með því að sýna heiminum að íslensk spilling er besta spilling í heimi, hrein og tær eins og vatnið okkar og loftið. Svo tær að hún sést ekki á mynd, nema Seljan tali undir.“

Hallgrímur Helgason rithöfundur flutti eldræðu á viðburði Pírata í í Iðnó í gær. Var ræðunni vel tekið hjá gestum sem fjölmenntu í Iðnó á málfund um spillingu á Íslandi. Fyrst las Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata upp nafnlausar spillingarsögur sem honum hafði borist í kjölfar ákalls hans eftir sögum um spillingu í íslensku samfélagi.

Þá steig rithöfundurinn Hallgrímur Helgason í pontu og var flutningurinn lifandi og kraftmikill. Hallgrímur tók fyrir Samherja, muninn á viðbrögðum heima og erlendis og tengsl Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra við sína gömlu vinnuveitendur.

Hér fyrir neðan má lesa ræðu Hallgríms Helgasonar í heild sinni:

„Nú eru 3 vikur liðnar frá því Samherjaskjölin voru birt og enn bólar ekkert á aðgerðum. Í Namibíu sitja nú sex háttsettir í fangelsi. Hér bólar ekkert á aðgerðum. Við vitum bara að „samskipti eru hafin“, þetta er allt svona aðeins meira kósí hjá okkur.

Spillingin hér er meiri en þar. Hér á Samherji samherja.

Í Namibíu var SWAPÓ-flokkurinn fljótur að sópa þeim af sér. Þeir vildu gera allt til að bjarga kosningunum og létu lögguna strax í málið. SWAPÓ-flokknum okkar er hinsvegar alveg sama um kosningar, hann treystir á að allt verði gleymt að tveimur árum liðnum. Hér taka menn kunningsskapinn fram yfir kjörfylgið, hér taka menn manninn fram yfir boltann, hér er meðvirknin meiri, spillingin meiri.

Semsagt: Ísland er spilltara en Namibía. Sama hvað ráðherrann segir. Eins og staðan er núna munar þremur vikum og sex handtökum á Íslandi og Namibíu.

Spillingin er í eðli Samherja. Við gáfum þeim kvótann. Og gáfum þannig tóninn. Þeir vöndust því að fá hlutina gefins. Eða með klóku svindli. Á Íslandi þarf engar mútur. Því hérna þekkir maður mann. Og maður þarf ekki að borga þeim sem maður þekkir, því maður veit að það borgar sig að þekkja þann mann.

Kvótakerfið er kapítalismi andskotans. Spilavíti þar sem enginn gat tapað. Eina spilavíti heimsins þar sem allir spilararnir græddu. Þeir einu sem töpuðu voru þeir sem aldrei komust inn. Þess vegna er í raun rangt að tengja kvótakerfið við kapítalisma, því kapítalismi gengur út á að fólk eigi pening eða fái lánaðan pening, annars kemst það ekki inn í þann leik, það mikla spilavíti, þú kemst ekki að borðinu, en hér fengu semsagt allir spilapeningana gefins, í ársbyrjun 1984, og hafa rúllað á þeirri rúllettu síðan, tapað og grætt, stolið og snætt, og grætt svo aðeins meir.

Ísland er miklu ríkara land en við höldum. Gróði þeirra sem ráða gagnast engum. Ekki einu sinni sjálfum þeim. Eða hvernig á einum manni að endast ævin til að eyða hundrað milljörðum?

En þetta leyfðum við þeim. Við gáfum þeim kvótann. Við leyfðum þeim að selja kvótann. Við leyfðum þeim að kaupa skipin burt að vestan. Og bæjarstjórann að auki. Við leyfðum þeim að leggja niður byggðirnar. Við leyfðum þeim að kyrkja nánast Hrísey. Við lögðum á þá veiðigjald en lækkuðum það strax aftur. Og leyfðum þeim að skrá gróðann á vinnsluna en tapið á veiðarnar. Sem lækkar svo gjaldið enn frekar. Við leyfðum þeim að gera upp í evrum. Við leyfðum þeim að halda sínum Mogga. Við leyfðum þeim að afskrifa af honum hrunskuldina. Við leyfðum þeim að andskotast út í ESB á meðan þeir gerðu sjálfir upp í evrum. Um leið og þeir nýttu sér það sama ESB til að komast í rányrkju við Marokkóstrendur. Við leyfðum þeim að eiga alla sjávarútvegsráðherra frá Halldóri Ásgríms til Kristjáns Þórs. Við leyfðum þeim að nota sér langræktað íslenskt orðspor, til kvótaráns í Namibíu. Og við brytjuðum niður Fiskistofu fyrir þá, svo það mætti flytja hana norður og troða henni ofan í skúffuna hjá þeim. (Við munum öll viðtalið sem Seljan tók við Fiskistofustjóra vegna nýbirtra brottkasts-myndbanda, viðtal sem var einmitt tekið ofan í skúffunni hjá Samherja). Og við leyfðum þeim að eignast allan fjörðinn sinn og málfrelsi allra þeirra sem þar búa. Og á Máva sinn trúa.

Við leyfðum þeim allt og meira. Þeir launuðu okkur með undirferli og fiffi og földu sinn gegndarlausa gróða á Kýpur og Karabí-eyjum, í sautján félögum til hægri og öðrum eins til vinstri, með svo flóknu eignarhaldi að þeir voru jafnvel sjálfir hættir að koma auga á sitt eigið svindl.

Við höfum ræktað þessa skúrka og leyft þeim að ráða hér öllu. Nú launa þeir okkur með því að sýna heiminum að íslensk spilling er besta spilling í heimi, hrein og tær eins og vatnið okkar og loftið. Svo tær að hún sést ekki á mynd, nema Seljan tali undir.

Við gáfum þeim kvótann, við gáfum þeim áratugi, við gáfum þeim ríkisstjórnir, við gáfum þeim ráðherra sjávarútvegs, manninn sem þekkir manninn, manninn sem veit að hann þarf ekki að fá borgað fyrir að þekkja manninn af því hann veit að það borgar sig að þekkja manninn.

Meira að segja á sjálfum Samherjatogaranum var hlegið dátt í matsalnum fyrir tveimur árum þegar tilkynnt var að Kristján Þór Júlíusson yrði næsti sjávarútvegsráðherra, yrði það sem þeir kalla “sjávarútvegarinn”. Menn gátu ekki hamið sig, þótt hlátur sá væri bannaður, í messanum hjá Samherja. Kannski hlógu þeir svona dátt því aðeins nokkrum árum áður hafði hann setið með þeim í messanum, hann Kristján Þór hafði setið með þeim í messanum, sem einn af hásetunum á togaranum. Er ekki Ísland ótrúlegt land? Hásetinn gat orðið ráðherra! Undirmaður forstjórans gat orðið yfirmaður alls málaflokksins! Já, eða kannski ekki yfirmaður, meira svona “útvegari”.

Er ekki íslenska spillingin falleg?

Enginn sér lífið í landi með skýrari augum en sjómaður á dekki, því hafsaugað er öflugast af þeim öllum.

Og allar vikur síðan hefur samvinna Samherjasamherjans við Samherja gengið snurðulaust.

Veiðigjaldafrumvarpið rann í gegn, sérsniðið að þörfum útgerðarrisanna, engar athugasemdir voru heldur gerðar þótt fyrirtækið bryti 12% kvótaþakið, en þegar forstjórinn var afhjúpaður sem alþjóðlegur mútari var tólið þó tekið upp og spurt hvernig mönnum liði, og takið eftir: “hvernig menn ætla að taka á því máli” - þetta sagði Kristján Þór orðrétt í Kastljósi. Hvernig ætlaði glæpamaðurinn að taka á því að upp um hann komst? Ætlaði hann að þegja eða játa eða ljúga jafnvel meiru? Og svo var náttúrlega fjórði möguleikinn, að reyna bara að múta aðeins meira. En hverjum þá? Seljan? RÚV? Norðmönnum? Namibíu? Eða bara útvegaranum sjálfum? Já, maður þekkir sinn mann…

Nú, næsta skref var að segja sig frá öllu sem varðaði málefni Samherja, ráðherrann ætlaði ekki að koma nærri neinu sem fyrirtækið varðaði. Daginn eftir var hann þó mættur í veisluna á Dalvík, í mat og drykk og myndir í boði Samherja, Samherja til dýrðar. Og daginn þar á eftir var hann mættur á ríkisstjórnarfund til að ræða hugsanlegar aðgerðir í þessu sorglega máli þarna með Samherja.

Þetta þykir í lagi hjá fólki sem þekkir fólk. Og ekki heyrist heldur múkk frá samkeppnisaðilum Samherja sem eiga þó allt sitt undir sitjandi sjávarútvegara. Þeir virðast alls ekkert óánægðir með stöðuna. Ráðherrann hefur viðurkennt tengls sín við Samherja og þeirra vegna ætli hann að segja sig frá Samherjamálum en gerir það svo ekki. Það skiptir þá engu. Það skyldi þó ekki vera að allir væru samherjar í þessum bransa, með samherjandi hagsmuni og samvinnufúsan ráðherra?

Goðarnir eru glaðir. Í Brimi, Síldarvinnslu, Skinney-Þinganes, HB Granda, Kaupfélagi Skagfirðinga, Vinnslustöðinni, Ísfélaginu, Þorbirni og Ramma. Ísland er ennþá goðaveldi, ekkert hefur breyst hér síðan á söguöld. Héraðshöfðingjarnir hafa skipt landinu á milli sín og eiga hver sinn fjörð og hver sitt fólk, og fyrir vestan er svo laxeldið að eigna sér sömu hluti. Á Ísafirði mun jafnvel róttækasta fólk ekki fást til að andmæla laxeldi, í Eyjafirði fæst ekki orð upp úr nokkrum manni um Namibíu, í Skagafirði er enginn málfrjáls lengur, fremur en í Grindavík eða á Höfn, allir eru múlbundnir af hagsmunum sínum og sinna, enginn vill tala atvinnuna af hjónunum á móti, allir eru því þægir, eins og ráðherrar í ríkisstjórn sem ekki vildu bæta við aukafjárframlagi til saksóknara vegna Samherjamálsins stóra og hafa enn ekki gert.

Nei. Samherjar Samherja hafa það enn ekki gert.

Goðarnir eiga okkur. Ísland er goðaveldi. Maður þekkir mann og allir þekkjast hann, þann stóra, goðann. Á Íslandi er ekkert lýðræði. Bara auðræði og goðaveldi. Jafnvel ekki þjóðaratkvæði hefur neina merkingu lengur.

Og einmitt af þessum sökum sér maður það ekki gerast að Þorsteinn Már Baldvinsson, sá sem mútaði ráðherrum í fátæku landi svo hann gæti arðrænt auðlind þess með stæl, já … maður sér það semsagt ekki gerast að hann verði handtekinn og færður til yfirheyrslu, tölvur hans teknar og reikningar frystir. Maður þekkir mann og maður þekkir þessa menn og maður setur ekki sjálfan Íslandsgoðann í járn. Ja, ef þú reynir mætir sonur hans með uppbrettar ermar.

Við þurfum nýja sjálfstæðisbaráttu. Aurgoðarnir eru Danir okkar tíma. Við þurfum að segja “Vér mótmælum öll!” Við þurfum að taka völdin í eigin landi. Við þurfum að ná þýfinu aftur heim. Við þurfum að gefa upp á nýtt. Við þurfum nýja ríkisstjórn. Við þurfum að gefa kvótaflokkunum frí. Við þurfum nýja stjórnarskrá. Við þurfum og við þurfum og við þurfum. Já!

Það þýðir ekki að gera ekki neitt.“