Uppskrift: Gómsæta Fléttan með löðrandi súkkulaði sem fylgdi frá Kiel sem enginn stenst

Matarást Sjafnar

Uppskrift: Gómsæta Fléttan með löðrandi súkkulaði sem fylgdi frá Kiel sem enginn stenst

Fléttan gómsæta með löðrandi súkkulaði
Fléttan gómsæta með löðrandi súkkulaði

Flest okkar höldum við í ákveðnar hefðir og siði þegar við bjóðum gestum heim. Sumir eru duglegir enn daginn í dag, að kalla á fjölskyldur sínar og vini og bjóða í kaffiboð um helgar. Það má með sanni segja að það hafi farið minnkandi síðustu áratugina og jafnvel tímabært að taka aftur upp gamla, góða siði og venjur og hitta fólkið sitt oftar. Tolly Thorlacius sælkeri og listabakari með meiru er ein af þeim sem heldur fast í hefðir og er iðin að bjóða heim í ljúffengt bakkelsi og stórar matarveislur og veit ekkert skemmtilegra en að fá gesti í heimsókn og spjalla um lífið og tilveruna. Tolly er margt til lista lagt, hún bakar meðal annars listrænar og fagurlegar skreytar kökur, er mikill matgæðingur og einstakur gestgjafi. Sjöfn Þórðar fjölmiðlakona heimsótti Tolly á dögunum og lék forvitni að vita hvort hún ætti sitt uppáhalds bakkesli eða köku fyrir helgarkaffið sem hún væri til í að gefa uppskriftinni af.

Áttu þér þitt uppáhalds bakkelsi eða köku fyrir helgarkaffið?

„Uppáhald bakkelsi fjölskyldunnar er Fléttan sem er í raun eins og ílangur snúður með bræddu súkkulaði ofan á. Marg oft búin að baka hana, bæði fyrir okkur og aðra.“

Hver er sagan á bak við Fléttuna?

„Við fjölskyldan bjuggum í nokkur ár úti í Kiel í Þýskalandi. Þar kynntumst við yndislegum hjónum frá Noregi og eitt skiptið sem þau buðu okkur í kaffi var Fléttan bökuð. Ég kolféll fyrir henni en ég þarf alltaf að breyta og aðlaga að mínum smekk svo ég breytti uppskriftinni örlítið. Það áttu upprunalega að vera salthnetur og rúsínur inni í rúllunni en okkur Íslendingunum langaði í eitthvað sem minnti okkur á snúð eins og heima svo við slepptum þeim. Það er þó vissulega hægt að prófa sig áfram og setja alls konar fyllingu. Ég hef einnig sett kókosmjólk í staðin fyrir venjulega mjólk og þá er Fléttan orðin vegan, hún er jafnvel betri þannig.“

Býður þú gjarnan í helgarkaffi?

„Ég býð meira í bröns. Þá er heimabakað súrdeigsbrauð, sem maðurinn minn bakar, heimagert pestó og hummus, Fléttan, skonsur, möffins og ýmislegt fleira á boðstólnum. Það er alltaf jafn gaman að fá gesti í heimsókn og ræða um lífið og tilveruna yfir góðu heimagerðu bakkelsi.“

Heldur þú í ákveðnar hefðir og siði í tengslum við kaffi og mat sem hafa verið við í gegnum tíðina í fjölskyldunni.

„Já, ég elska hefðir og held fast í þær. Fyrsta vetrardag hef ég ávallt íslenska kjötsúpu í matinn, gott að hefja veturinn á heitri súpu. Þriðja í jólum býð ég stórfjölskyldunni í sama fiskréttinn. Það er svo gott að fá fisk eftir kjötátið yfir hátíðarnar. Á sumardaginn fyrsta er ávallt grill og helst borðað úti ef veður leyfir. Svo er að sjálfsögðu bakað fyrir öll afmæli innan fjölskyldunnar. Að lokum er ein af mínum uppáhalds hefðum að hlusta á latín tónlist þegar ég baka, fjölskyldunni til mikillar gleði, eða svona næstum.“

Fléttan hennar Tolly

450 g brauðhveiti

1 tsk. lyftiduft

1 tsk. kardimommur

50 g sykur

100 g smjörlíki

1 ½  dl mjólk (kókosmjólk)

1 ½ dl vatn

1 pakki ger

Blandið öllum þurrefnum saman, bræðið smjörlíki í potti og hellið vökvanum út í pottinn, hafið hitann um 37°gráðu heitan.  Blandið öllu saman og látið hefast í um það bil 30-40 mínútur. Hitið ofninn í 180-200° gráður hita. Þegar deigið er búið að hefast skiptið deiginu í tvennt og fletjið út í langan ferhyrning.  Smyrjið með bræddu smjörlíki og stráið kanilsykri yfir.

 

Rúllið því næst upp og klippið, sjá sýnis horn á myndum. Gott að láta hefast aftur í um það bil 15 mínútur (má sleppa) og bakið við 180-200°gráður í ofni í um það bil 15 mínútur. Smyrjið flétturnar með hazelnut spred nýkomnar úr ofninum, þá bráðnar súkkulaðið svo flott (mér finnst best að nota Euroshopper hazelnut spread).

„Ég prufaði að sleppa vatninu og mjólkinni og notaði kókosmjólk 3 dl í staðinn og Fléttan varð eiginlega betri og vegan í þokkabót,“ sagði Tolly og er hin ánægðasta með útkomuna.

Njótið vel.

 

 

Nýjast