Upplýsingafulltrúi saf nýkominn frá Tene: Titringurinn var greinilegur

Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar, sem kom heim frá Tenerife í gærkvöld var ekki bara veðurtepptur á eyjunni sakir sandstorms heldur fann hann líka hvernig samfélagið á staðnum breyttist eftir að hótelgestir voru settir þar í sóttkví vegna COVID19 veirunnar.

Hann er í viðtali í fréttaþættinum 21 í kvöld og lýsir þar viðbrögðum ferðaþjónustumanna á Íslandi við útbreiðslu faraldursins sem fyrst kom upp í Kína undir lok síðasta árs - og þótt hann virðist vera þar í rénun, eru áhrifin augljós hér á landi; ferðum Kínverja hingað til lands hefur strax fækkað að mun - og munar þar miklu, enda komu hingað um 100 þúsund kínverskir ferðamenn á síðasta ári.

Hann segir ómögulegt að spá fyrir um breyttar ferðavenjur annarra þjóða á næstunni, en COVID veiran hefur skotið upp kollinum víða í Evrópu og öðrum álfum utan Asíu á síðustu vikum - og er nú svo komið að sóttvarnarlæknir á Íslandi ræður fólki frá ónauðsynlegum ferðum til Kína, S-Kóreu, Írans og fjögurra héraða á N-Ítalíu og geldur auk þess varhug við öðrum svæðum á Ítalíu, svo og Tenerife, Japan, Singapúr og Hong Kong.

Skapti segir að nú sé mikilvægt að draga andann djúpt og rasa ekki að neinu, en taka ráðleggingar heilbrigðisyfirvalda alvarlega, ásamt því að þétta raðirnar innan Samtaka ferðaþjónustunnar - og upplýsa alla ferðamenn vel og vandlega; Ísland sé ennþá, vel að merkja, öruggur kostur ferðafólks utan úr heimi..