Þótti miður að sitja fund með Klaustursþingmanni

Þótti miður að sitja fund með Klaustursþingmanni

Fríða Rós Valdimarsdóttir / Mynd: Euronews
Fríða Rós Valdimarsdóttir / Mynd: Euronews

Í gær var haldinn fundur í velferðarnefnd Alþingis, þar sem gestir voru fulltrúar frá Kvenréttindafélagi Íslands og Femínistafélagi Háskóla Íslands. Á fundinum var lesin upp yfirlýsing stjórnar Kvenréttindafélagsins, þar sem félagið sagði það miður að þurfa að sitja fund með aðilum sem hefðu tekið þátt í hatursorðræðu með þeim hætti sem átti sér stað á Klaustur bar í nóvember síðastliðnum, en Anna Kolbrún Árnadóttir, þingkona Miðflokksins, sat fundinn. Eyjan.DV.is greinir frá.

Á fundinum var meðal annars farið yfir frumvarp til laga um þungunarrof. Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, segir í samtali við Eyjuna að mikilvægt sé að frumvarpið verði samþykkt.

Eins og áður segir var Anna Kolbrún meðal þeirra sem sat fundinn. Hún var sem kunnugt er á Klaustur bar þann 20. nóvember síðastliðinn ásamt fimm öðrum þingmönnum og tók meðal annars þátt í niðrandi orðræðu í garð annarra þingkvenna og fatlaðra.

„Okkur þykir miður, stjórn Kvenréttindafélagsins, að við þurfum að sitja fundi með fólki sem hélt fram slíkri hatursorðræðu og fólkið gerði á Klaustri í nóvember. Við ákváðum samt að sitja fundinn, af því við viljum ekki að, út af þessu, sé okkar skoðunum og sýn úthýst. Þetta er samt staða sem er ekki bjóðandi,“ segir Fríða Rós.

Hún furðar sig á því hvernig Alþingi vann úr Klaustursmálinu og segir það ólíðandi að þolendur hatursorðræðu þurfi að mæta til vinnu með gerendum sínum. „Það bara svíður að þurfa að horfa upp á þetta.“

Nýjast