Davíð virtist ekki í jafnvægi: fávitar, vitleysingar, idíótar, helvítis bjálfar og glæpahyski

Út er komin ævisaga Halldórs Ásgrímssonar sem skráð er af Guðjóni Friðrikssyni og gefin út af Forlaginu. Halldór var áratugum saman einn áhrifamesti stjórnmálamaður landsins og sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn þar sem hann var formaður í 12 ár. Hann var sjávarútvegsráðherra, utanríkisráðherra og síðan forsætisráðherra árið 2004 en hvarf af vettvangi stjórnmálanna árið 2006. Halldór lést 18. maí 2015.

Í bókinni eru fjölmargar frásagnir af Davíð Oddssyni fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins sem nú er ritstjóri Morgunblaðsins. Í bókinni er vitnað í dagbókarskrif Jóns Kristjánssonar fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins en ríkisstjórnarfundir gátu verið ansi skrautlegir. Í ævisögu Halldórs segir orðrétt:

„Í upphafi funda lét hann gjarnan móðan mása um menn og málefni og talaði þá ekki alltaf vel um þá menn sem hann hafði litla velþóknun á, svo sem Ólaf Ragnar Grímsson forseta sem hann lét æ meira fara í taugarnar á sér og sagði háðulegar sögur af. Þetta voru þó oft hinar skemmtilegustu stundir því Davíð er sögumaður góður. Meirihluta Reykjavíkurlistans í Reykjavík og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra var honum og meinilla við og lá ekki á þeirri skoðun sinni“.

\"\"

Það má lesa út úr minnisbókum Jóns Kristjánssonar á útmánuðum 2002, þegar sveitarstjórnarkosningar voru fram undan, að Davíð byrjaði ríkisstjórnarfundi gjarnan á því að messa yfir mönnum og virðist ekki alltaf hafa verið í góðu skapi. Síkar messur kallar Jón morgunbænir í minnisbókum sínum. Föstudaginn 7. mars 2002 skrifar Jón:

„Ríkisstjórnarfundur. Sögustund hjá forsætisráðherra í upphafi. Kvæðastund á eftir.“

\"\"Föstudaginn 26. apríl blöskraði hinum orðvara og prúða heilbrigðisráðherra orðræða Davíðs.  Hann skrifar í minnisbók sína:

„Ríkisstjórn ... Morgunbæn forsætisráðherra: Vitleysingar og fávitar, kratasamtök og idíótar, fávitar sem ekki ráða við nokkurn skapaðan hlut. Tók tvo tíma að henda vitleysingunum út. Þarf að moka fénu út í hafsauga. Viðurstyggilegir helvítis bjálfar og mannleysur (Flugleiðir).“

„Ríkisstjórnarfundur ... Sögustund – menn í tiltölulega góðu skapi.“

Þá segir einnig í ævisögu Halldórs:

„Reiði Davíðs fékk sem oftar útrás á ríkisstjórnarfundi 21. nóvember 2003. Halldór Ásgrímsson gegndi þá embætti viðskiptaráðherra í forföllum Valgerðar Sverrisdóttur og gerði að umtalsefni lagalega stöðu kaupréttarsamninga bankanna sem hann kvað nauðsynlegt að rannsaka.

Í minnispunktum Jóns  Kristjánssonar af fundinum stendur:

„Forsætisráðherra talaði næstur og fór mikinn. Málið er greinilega afar viðkvæmt.“

Út á spássíu hefur Jón svo skrifað:

„Rætt um vafasama pappíra, glæpahyski og úttekt á peningum o.fl. Hvessti við endann á borðinu út af hver hefði umgengist hvern. Sumir héldu að samstarfinu væri lokið. Storminn lægði þó smám saman.“

Síðustu mánuðirnir, sem Davíð Oddsson sat í stól forsætisráðherra, reyndust honum strembnir og hann virtist ekki alltaf í góðu jafnvægi.