Styrkir og launað starfsnám til kennaranema

Styrkir og launað starfsnám til kennaranema

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra  vinnur að frumvarpi til að bregðast við kennaraskorti sem hún segir að blasi við. Hún hyggst breyta námsfyrirkomulagi kennaranema á þann veg að LÍN greiði sérstaka styrki til þeirra og að starfsnám kennaranema á fimmta ári verði launað. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

„Aðsókn í kennaranám hefur verið að minnka og þótt við höfum séð vísbendingar um smávægilega aukningu í námið á vorönn í fyrra þá er ljóst að fjöldi brautskráðra kennara er ekki nægur til þess að mæta nýliðun á öllum skólastigum. Auk þess er brottfall úr náminu mikið og námsframvinda kennaranema hæg. Við erum að horfa fram á kennaraskort og það er grafalvarlegt mál,“ segir Lilja í samtali við Fréttablaðið.

Lilja áætlar að frumvarpið verði tilbúið næsta haust. Hugmyndin sé að það verði fjárhagslegur hvati úr LÍN í afmarkaðan tíma til þess að auka aðsókn í námið. Hún segir að þessi áætlaða aðgerð þurfi ekki að fela í sér mismunun gagnvart nemendum annarra námsgreina, Norðmenn hafi t.d. haft svipað fyrirkomulag um kennaranám þarlendis sem hafi mælst vel fyrir.

Nýjast