Er Gamma deild í Sjálfstæðisflokknum?

Vefmiðillinn Stundin með vangaveltur:

Er Gamma deild í Sjálfstæðisflokknum?

Sjóðstýringarfyrirtækið GAMMA hefur verið talsvert í sviðsljósinu að undanförnu. Gísli Hauksson einn af stofnendum og eigandi 30% hlutafjár vék óvænt úr stjórninni en hann hafði áður vikið sem forstjóri til að einbeita sér að erlendum verkefnum eins og tilkynnt var.

 

Brottför Gísla úr stjórninni hefur valdið ýmsum vangaveltum á markaðinum. Sumir hafa haldið því fram að umrót hafi orðið í fyrirtækinu og hluthafahópnum vegna mikils kostnaðar við erlendar skrifstofur GAMMA í New York, London og Sviss sem hafa enn ekki skilað miklum tekjum en haft mikil og þung útgjöld í för með sér enda ekkert til sparað. Mörgum þykir mikill “2007-svipur” á þessari útrás en aðrir líta þannig á að erlendu verkefnin séu í eðlilegum farvegi. Öllum hafi mátt vera ljóst að fyrst þyrfti að fjárfesta myndarlega áður en búast mætti við uppskeru. Það mun fljótlega koma á daginn hvort einhugur er í hópi eigenda GAMMA eða hvort tekið sé að gæta óróa.

 

Í lok síðustu viku birti Stundin ítarlega umfjöllun um GAMMA eftir Inga Frey Vilhjálmsson. Þar gerir hann grein fyrir þróun fyrirtækisins og rekur meðal annars hvernig GAMMA hóf að fjárfesta í eftirsóttum íbúðum til útleigu sem settar voru í sjóð sem orðið hefur mjög öflugur. Í umfjöllun Stundarinnar er því haldið fram að með framtaki sínu hafi GAMMA haft veruleg áhrif til hækkunar á bæði íbúðaverði og ekki síður leiguverði á vissum svæðum í höfuðborginni, einkum í miðbæ og á vestursvæðinu.

 

Ingi Freyr gerir ítarlega grein fyrir ýmsum af lykilpersónum GAMMA. Þar vekur athygli að margar þeirra eiga það sammerkt að tengjast Sjálfstæðisflokknum sterkum böndum og margir eiga að baki feril innan flokksins, þar af nokkrir sem hafa verið áberandi og jafnvel umdeildir.

 

Gísli Hauksson stofnandi og fyrrum forstjóri er formaður Fjármálaráðs Sjálfstæðisflokksins og á einnig sæti í Miðstjórn. Flokkurinn er skuldum vafinn með 500 milljónir króna á bakinu. Þeir sem taka að sér að berjast áfram með erfið og nær vonlaus fjármál flokksins eiga jafnan góðan aðgang að forystunni. Jónmundur Guðmannsson gegnir framkvæmdastjórastöðu hjá GAMMA. Hann var á sínum tíma umdeildur bæjarstjóri á Seltjarnarnesi og tók svo við stöðu framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. 

 

Ingvi Hrafn Óskarsson lögfræðingur er framkvæmdastjóri sérhæfðra fjárfestinga hjá GAMMA. Hann er fyrrum formaður SUS og var um tíma varaþingmaður flokksins. Illugi Gunnarsson gerði hann að formanni RÚV en hann sagði því embætti skyndilega lausu árið 2015.

 

Eiríkur Finnur Greipsson er fyrrum sparisjóðsstjóri á Flateyri og oddviti sjálfstæðismanna þar. Hann er verkefnastjóri hjá GAMMA. Eiríkur hefur lent í fjölmiðlaumræðu vegna tengsla við Illuga Gunnarsson en Eiríkur lánaði Illuga tvisvar vegna vandræða hans og vanskila sem mikið var rætt um í tengslum við Orku Energy fyrir 2 árum. Illugi skipaði Eirík í stjórn RÚV.

 

Nýlega tók Almar Guðmundsson til starfa hjá GAMMA sem framkvæmdastjóri Krítar fjármálalausna. Hann er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Þá má nefna að meðal ráðgjafa hjá GAMMA er Tryggvi Þór Herbertsson fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins og forstjóri Milestone sem varð gjaldþrota eftir hrun. Tryggvi sat á þingi 2009 til 2013 en var þá ekki í framboði eftir að hafa gjörtapað prófkjöri í NAU-kjördæmi. Hann lenti í 6. sæti eftir að hafa reynt að fella Kristján Þór Júlíusson úr forystusætinu. Loks má nefna Pétur Árna Jónsson sem er framkvæmdastjóri í fasteignafélagi innan GAMMA. Hann hefur verið virkur í starfi flokksins, einkum innan ungliðahreyfingarinnar á árum áður.

 

Þau miklu tengsl við Sjálfstæðisflokkinn sem hér að framan greinir hljóta að vekja upp spurningar um sjálfstæði fjármálafyrirtækis og óvenjulega mikil pólitísk tengsl en þau hafa hingað til almennt ekki verið talin æskileg í viðkvæmri fjármálastarfsemi.

 

Nýjast