Sóley skorar á borgarfulltrúa að taka höndum saman gegn popúlískum árásum Vigdísar Hauksdóttur

Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, segir uppgang popúlisma byggjast á sjálfumglöðum og ósvífnum einstaklingum sem skilgreini meinta elítu og ali á tortryggni gagnvart henni. Þetta segir hún í pistli sínum sem birtist á Vísi í gær.

Hún fjallar þá um popúlisma á Íslandi og borgarfulltrúa nokkurn, sem hún nafngreinir hvergi en má ljóst vera að hún er að tala um Vigdísi Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins:

„Í Borgarstjórn Reykjavíkur eru þó raunverulegar blikur á lofti þar sem framganga eins borgarfulltrúa minnir óþægilega á sjálfumglaða leiðtoga popúlismans erlendis. Gífuryrði um neyðarástand, spillingu, blekkingar, lögbrot, lygar og pretti borgarfulltrúa eru daglegt brauð, sett fram á óheflaðan og óvandaðan hátt og oft fullkomlega óháð sannleiksgildi. Því til viðbótar er starfsfólk borgarinnar smánað, tortryggt og sakað um vanhæfni og spillingu á opinberum vettvangi án þess að það eigi möguleika á að bera hönd fyrir höfuð sér." skrifar Sóley.

„Borgarfulltrúinn virðir hvorki valdmörk sín né hlutverk, sem felst í stefnumótun og ákvarðanatöku í samstarfi við aðra kjörna fulltrúa. Henni ber að beina gagnrýni sinni að samstarfsfólki sínu á vettvangi borgarstjórnar en ekki starfsfólks sem hefur það eina hlutverk að framfylgja ákvörðununum. Enn síður skeytir borgarfulltrúinn um þá staðreynd að málfrelsi hennar er meira en embættisfólks sem verður að gæta hlutleysis til að geta unnið með kjörnum fulltrúum allra flokka. Eini möguleikinn sem þau hafa er að senda erindi til forsætis- og/eða siðanefndar. Að grípa til varna á opinberum vettvangi myndi rýra trúverðugleika þeirra og setja þau í mjög erfiða stöðu gagnvart öllum kjörnum fulltrúum, bæði nútíðar og framtíðar.

Almennt viðkvæði við framgöngu borgarfulltrúans er að gera grín að óhefluðu orðfæri, gífuryrðum og rökleysu. Að afskrifa hana sem einhvers konar furðufugl. Vissulega gefur hún tilefni til slíks, þó betur færi á því að brugðist væri af alefli við þessum markvissu og öguðu popúlísku vinnubrögðum. Fyrir henni vakir það eitt að grafa undan trausti almennings gegn opinberum stofnunum og hrekja starfsfólk úr stjórnkerfinu svo hægt verði að fylla stöðurnar með fólki sem henni er þóknanlegt að afloknum næstu kosningum. Skilgreina elítu og almenning og skapa gjá sem hún ein getur brúað.

Nýjasta mæling Gallup á trausti til stofnana samfélagsins bendir til þess að borgarfulltrúanum miði ágætlega, enda hefur traust gagnvart borgarstjórn dalað úr 24% í 17% frá síðustu kosningum og mælist nú minnst allra stofnana,"  heldur hún svo áfram.

Loks segir Sóley að kjörnir fulltrúar verða að virða valdmörk sín, takast á á jafningjagrunni og tryggja að starfsfólk borgarinnar geti unnið vinnuna sína í friði Hún skorar þá á kjörna fulltrúa að taka höndum saman, verjast popúlískum árásum og svara Vigdísi af fullum hálsi.