Skylduaðildin að lífeyrissjóðunum var fyrsta skref okkar inn í nútímann

Lífeyrissjóðir í 50 ár, frumsýning á Hringbraut í kvöld:

Skylduaðildin að lífeyrissjóðunum var fyrsta skref okkar inn í nútímann

Saga lífeyrissjóðanna í hálfa öld, allt frá því að skylduaðild að þeim var tekin upp árið 1969, verður rakin í klukkustundarlöngum sjónvarpsþætti á Hringbraut í kvöld með aðstoð fjölda sérfræðinga sem gjörþekkja bæði söguna, sérstöðuna og þær áskoranir sem blasa við sjóðunum á nýrri öld.

Fáir velta því fyrir sér í gráum hversdahgsleikanum hversu mikla þýðingu lífeyrissjóðirnir hafa bæði á hag landsins, en þó ekki síður einstaklinganna sem byggja það. Eins og fram kemur í þættinum er sjóðseign hverrar manneskju í langflestum tilfellum hennar allra stærsta eign við starfslok, langtum verðmætari en hús hennar eða íbúð, svo og sumarbústaður eða bifreið. Þrátt fyrir þetta velta fæstir fyrir sér mikilvægi þessarar eignar fyrr en á efri árum, sem getur verið of seint ef fólk vill hámarka hana og nýta í samræmi við þarfir hvers og eins.

Í þættinum er fullyrt að skylduaðildin að lífeyrissjóðunum fyrir fimmtíu árum hafi verið fyrsta skref landsmanna inn í nútímann - og að þar með hafi tími velmegunar hafist á Íslandi.

Eins er fullyrt að frumherjarnir hafi veðjað á réttan hest í byrjun, en þeir völdu leið sjóðsöfnunar einstaklinga fremur en gegnumstreymiskerfið sem er þekktara í löndunum í kringum okkur, en kerfin eru gerólík; það fyrra gerir ráð fyrir því að einstaklingar leggi til hliðar við hverja útborgun launa, en það síðara felur í sér skattlagningu ríkisins sem geymir sjóðinn fyrir einstaklingana, en þar liggur freistnivandinn, segja sérfræðingar; ríkið getur þá allt eins "lánað" sér þann uppsafnaða sjóð í önnur verkefni, eins og dæmi eru um hjá þjóðum sem tekið hafa upp gegnumstreymiskerfið.

Meðal gesta í þætti kvöldsins eru Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, Arnar Sigurmundsson, fyrrverandi formaður Landssamtakanna, Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri þeirra, Stefán Halldórsson, ráðgjafi hjá þeim, Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður hagdeildar Samtaka atvinnulífsins, Sumarliði R. Ísleifsson, sagnfræðingur og sérfræðingur í verkalýðssögunni og lífeyrissjóðsfólkið Harpa Jónsdóttir, Gunnar Baldvinsson, Tómas N. Möller, Davíð Rudolfsson, Snædís Ögn Flosadóttir og Ólafur Sigurðsson.

Umsjón með þættinum hefur Sigmundur Ernir Rúnarsson, sjónvarpsstjóri Hringbrautar, en kvikmyndatöku annaðist Gunnar Anton Guðmundsson. Þátturinn er tekinn upp í Petersen-svítu Gamla bíós sem átti einmitt sitt blómaskeið sem kvikmyndahús um það leyti sem sjóðirnir voru stofnaðir.

Nýjast