Sjálfstæðismaður situr áfram þrátt fyrir dóm: báturinn skráður á son bæjarfulltrúans

Guðmundur Gísli Geirdal er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Guðmundur átti útgerðarfyrirtækið Sælindi ehf og var það skráð fyrir bátnum Gísla KÓ-10. Bæjarfulltrúinn hefur nú verið dæmdur til að greiða þrotabúi útgerðarinnar 50 milljónir en hann skráði bátinn á son sinn og var það túlkað sem gjafagjörningur.

Í fréttum RÚV segir að Guðmundur ætli sér að áfrýja dómnum sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjaness.

Báturinn er enn í útgerð og segir á RÚV að hann sé skráður á son Guðmundar samkvæmt Fiskistofu. Þá segir að samkvæmt heimildum RÚV hafi báturinn farið á nauðungarsölu að beiðni tollstjóra og boðinn upp. Tveir hafi mætt á uppboðið, þáverandi bókari Sælindar og svo ótengdur maður. Á vef RÚV segir að sá síðarnefndi hafi boðið hærra en svo virðist sem báturinn hafi verið seldur aftur til fjölskyldunnar eftir uppboðið.

Guðmundur Gísli heldur fram að málið hafi engin áhrif á stöðu hans í bæjarstjórn og situr áfram.