Sigmundur Davíð: „Þá kom babb í bátinn í þingflokki Sjálfstæðismanna“

Sigmundur Davíð: „Þá kom babb í bátinn í þingflokki Sjálfstæðismanna“

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis segir að ekkert samkomulag liggi fyrir um þinglok. Í samtali við RÚV sagði Steingrímur að áframhaldandi fundarhöld þjónuðu ekki tilgangi og sleit hann því þingfundi síðdegis. Þá telur Steingrímur að mögulegt sé að ljúka þingstörfum á tveimur til þremur dögum ef andrúmsloftið sé sæmilegt og samningalotan sem framundan er, hvorki flókin né strembin. Þá ræddi RÚV einnig við Sigmund Davíð en samkomulag um þinglok var langt komið á milli stjórnarflokka og stjórnarandstöðu í gærkvöldi. Samið hafði verið um að afgreiða þriðja orkupakkann á aukaþingi í lok ágúst. Því treystu Sjálfstæðismenn ekki. Um það sagði Sigmundur Davíð nú undir kvöld:

„Það var í rauninni komið samkomulag og menn voru byrjaðir að skrifa undir það þá kom eitthvað babb í bátinn í þingflokki Sjálfstæðismanna. Ég veit ekki hvort það var einn þingmaður eða fleiri sem að gerðu athugasemdir við þau áform sem þar var lýst um samráðsnefnd til að skoða þriðja orkupakkann.“

Aðspurður hvort það væri vegna vantrausts Sjálfstæðismanna svaraði Sigmundur:

„Það held ég nú varla ég held að það sé nú frekar eftiráskýring.“

Nýjast