Sigmundur davíð: „málin leystust um leið og systir mín mætti á svæðið“ – bjarni: „ég er ekki sáttur“

„Já, ég er það. Nú gefst tækifæri til að skoða þessi orkupakkamál betur og þó að einhverjir sjálfstæðismenn hafi ekki viljað skipa þessa formlegu nefnd þá verður hægt að vinna í þessu í sumar og leggja niðurstöðurnar fyrir utanríkismálanefnd. Það er mjög jákvætt.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins í samtali við RÚV þegar ljóst var að samkomulag um að þinglok væru í höfn. Þriðja orkupakkanum hefur verið frestað þar til í lok ágúst. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kveðst sáttur og segir að ríkisstjórnin nái nú að ljúka sínum málum. Hann er þó ósáttur við hvernig þingstörf hafa þróast á síðustu vikum. Segir Bjarni að of auðvelt sé að taka þingið í gíslingu. Á sama tíma fagnar Sigmundur Davíð.

Bjarni sagði í samtali við RÚV.

„Ég er hins vegar ekki sáttur við það hvernig þingið hefur þróast og að við skulum vera komin svona langt út fyrir starfsáætlun, en það er ekki í fyrsta skipti.“

Sigmundur Davíð birti mynd þar sem hann stendur ásamt systur sinni. Þar fagnar Sigmundur niðurstöðunni. Sigmundur Davíð segir:

„Málin leystust um leið og systir mín mætti á svæðið. Það er ekki í fyrsta skipti.“