Segja um 600 hreindýrakálfa hafa farist úr hungri og vosbúð síðasta vetur

Segja um 600 hreindýrakálfa hafa farist úr hungri og vosbúð síðasta vetur

Ole Anton Bieltvedt, formaður Jarðarvina
Ole Anton Bieltvedt, formaður Jarðarvina

Dýra-, náttúru- og umhverfisverndarsamtökin Jarðarvinir segja að um 600 hreindýrakálfar fafi farist síðasta vetur í íslenskum hreindýrahögum. Samtökin telja líklegt að flestir þeirra hafi farist úr hungri og vosbúð.

Í tilkynningu frá Jarðarvinum er greint frá því að samkvæmt gagni með yfirskriftinni „Vetrarafkoma íslenskra hreindýrakálfa“, sem Náttúrustofa Austurlands sendi umhverfisráðherra 17. júlí síðastliðinn, hafi meðaldánartíðni hreindýrakálfa veturinn 2018-2019 verið 21 prósent. Dánartíðnin hafi verið frá 9 prósentum upp í 45 prósent eftir svæðum.

Samkvæmt talningu Náttúrustofu Austurlands í október í fyrra voru hreindýrakýr þá 2.255 talsins. Þar sem um 1.060 kýr höfðu verið drepnar í ágúst/september árið 2018 voru kýrnar sem áttu kálfa vorið 2018 samtals 3.315 kýr.

Geldishlufall hreindýrakúa á Íslandi er 10-15 prósent. Ef reiknað er með að 15 prósent kúnna 3.315 sem báru kálf vorið 2018 hafi verið geldar fæddust 2.800 kálfar það vor.

Það þýðir að um 600 hreindýrakálfar hafi farist síðasta vetur í íslenskum hreindýrahögum. Jarðarvinir telja líklegt að flestir þeirra hafi farist úr hungri og vosbúð.

Frá 1. ágúst 2018 til 15. september 2018 heimilaði umhverfisráðherra dráp á 1.061 kú. „Voru yngstu kálfar rétt 8 vikna, þegar drápið á mæðrum þeirra hófst. Er sjálfgefið, að mestur hluti kálfanna 600, sem fórust, hafi verið móðurlausir og vanbúnir til að standa á eigin fótum, þó að tíðarfar síðasta vetur hafi verið gott. Geta menn ímyndað sér, hvílíkur fjöldi munaðarlausra kálfa hefði drepist, ef harður vetur hefði komið,“ segir í tilkynningunni.

Eftir sumarveiðar 2018, þar sem um 1400 dýr voru felld, var heildarfjöldi hreindýra á Íslandi um 5500 talsins samkvæmt Náttúrustofu Austurlands.

Af mannavöldum

Í tilkynningunni er bent á það hafi ratað í heimsfréttir á dögunum að 200 hreindýr hafi drepist á Svalbarða. New York Times fjallaði meðal annars um málið. Ástæðan fyrir því að hreindýrin drápust er talin vera loftslagsbreytingar og hitasveiflur sem þeim tengjast. Eftir hlýindakafla haustið 2018 hafi komið hörkufrost skömmu síðar. Klakabrynja lagðist þá yfir beitiland dýranna, sem þau komust ekki í gegnum.

Á Svalbarða eru þó um 22.000 hreindýr og þannig drápust um 1 prósent dýranna. Jarðarvinir segja að hér á landi sé ekki hægt skýla sér á bak við loftslagsbreytingar.

„Hér var engum loftslagsbreytingum eða klakabrynjum fyrir að fara, heldur fórust a.m.k. 21% kálfanna, 600 burðarlitlir kálfar á fyrsta vetri, af mannavöldum; skeytingarleysi, vanrækslu og virðingarleysi stjórnvalda gagnvart lífríkinu og náttúrunni,“ segir í tilkynningunni.

Jarðarvinir segja að umhverfisráðherra hefði getað seinkað veiðitíma hreindýrakúa í ár, á grundvelli þeirra upplýsinga sem hann hafi fengið frá Náttúrustofu Austurlands þann 17. júlí síðastliðinn, en að það hafi hann ekki gert.

Vilja lengja griðatíma kálfa 

Hreindýr tilheyra flokki hjartardýra. Hér á landi má drepa hreindýrakýr frá og með 1. ágúst, þegar yngstu kálfar eru 8 vikna. Í Noregi má ekki drepa hreindýrakýr frá kálfum fyrr en með og frá 20. Ágúst. Þar sem kálfar fæðast nokkru fyrr í Noregi, enda vorar þar fyrr eru kálfar þar í landi minnst 12 vikna þegar dráp mæðra þeirra hefst.

Í Svíþjóð má ekki drepa skyldar kýr af hjartarættinni fyrr en 3. september í tilfelli elgja og 1. október í tilfelli dádýra. Þar vorar líka nokkru fyrr. Eru kálfar þessar nátengdu dýra því yngstir 14 vikna og 18 vikna þegar dráp mæðra þeirra má hefjast.

„Til að samræma veiðitíma hreindýrakúa því sem minnst er á hinum Norðurlöndunum og draga úr því að hreindýrakálfar hér farist í stórum stíl - með kvalafullum og hörmulegum hætti - þyrfti að lengja griðatíma hreindýrakálfa hér til a.m.k. 27. ágúst,“ segir í tilkynningu Jarðarvina.

Að lokum er það nefnt að þó að einhver hluti hreindýrakálfa falli að vetri af náttúrulegum ástæðum hér á landi sé það hlutfall langt undir þeirri dánartíðni hreindýrakálfa sem hafi mælst síðastliðinn vetur.

Nýjast