Seðlabankinn hafnar fimm milljóna bótakröfu Þorsteins

Seðlabankinn hafnar fimm milljóna bótakröfu Þorsteins

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur krafið Seðlabanka Íslands um bætur vegna kostnaðar og miska sem málarekstur bankans vegna ætlaðra brota hans og fyrirtækisins á lögum og reglum um gjaldeyrismál hefur haft í för með sér. Þorsteinn bauðst til þess að samþykkja greiðslu frá Seðlabankanum upp á fimm milljónir króna en bankinn hefur hafnað þeirri kröfu.

Markaðurinn greinir frá og vísar til bréfs Seðlabankans til Samherja, dagsettu þann 30. júlí síðastliðinn.

Í nóvember í fyrra staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms sem hafði fellt úr gildi 15 milljóna króna stjórnvaldssekt, sem Seðlabankinn hafði lagt á Samherja fyrir meint brot á gjaldeyrislögum.

Í bréfi Seðlabankans til Samherja, sem er undirritað af Steinari Þór Guðgeirssyni, lögmanni Seðlabankans, kemur fram að bankinn sjái sér ekki fært um að verða við kröfu Þorsteins þar sem bankinn telji sig ekki hafa haft afskipti af Samherja með saknæmum eða ólögmætum hætti. Auk þess hafi málsmeðferð bankans ekki brotið gegn réttindum Þorsteins þannig að bótaskyldu að lögum varði.

Þorsteinn hafði fyrr í sumar sent erindi til Seðlabankans og mælst til þess að bankinn byði honum að eigin frumkvæði til viðræðna um bætur. Að öðrum kosti myndi hann setja fram einhliða kröfu um skaðabætur og höfðun dómsmáls til innheimtu þeirra ef með þyrfti.

Þorsteinn hafði í kröfu sinni til Seðlabankans ákveðið að „einskorða kröfu sína við aðkeypta sérfræðiþjónustu lögmanna við að verjast og fá hnekkt ólögmætum málatilbúnaði Seðlabankans,“ eins og hann orðaði það sjálfur í erindi í sínu frá 23. maí.

Nýjast