Myndband: Sauð upp úr í Kastljósi – Inga sakaði Einar um árás og sagði: Þú gast ekki beðið að fara í hvað maður er vitlaus

Inga Sæland var gestur Einars Þorsteinssonar í Kastljósi. Inga Sæland stóð í þeirri meiningu að ræða ætti að mestu stjórnmál og Flokk fólksins. Stærsti hluti þáttarins fór í að ræða skoðanir Ingu Sæland á hvernig hún telur að eigi að bregðast við yfirvofandi hættu sem stafar vegna kórónaveirunnar. Viðtalið hefur vakið mikla athygli og hefur Einar Þorsteinsson verið nokkuð gagnrýndur fyrir framgöngu sína í þættinum.

Inga hefur talað fyrir því að loka landinu og eins að koma upp sóttkví í Egilshöll. Inga segir að þátturinn hafi einkennst af furðulegri árásarhneigð“ í stað þess að rætt væri við formann stjórnmálaflokks um málefni flokksins en rúmur helmingur tímans fór í að ræða skoðanir Ingu Sælands á kórónaveirunni. Á endanum fékk Inga Sæland nóg. Þá hafði Einar Þorsteinsson sagt:

„Fyrir síðustu kosningar líktir þú þér við Le Pen, svona popúlista og tókst undir það.“

Einar bætti við að Inga væri að grafa undan stofnunum eins og sóttvarnalækni, almannavörnum, ríkislögreglustjóra með fullyrðingum sem hvorki byggðu á vísindum né djúpri þekkingu, enda hefði hún hana ekki.

Inga Sæland svaraði að það væri hennar skoðun og sannfæring að ekki væri nóg gert af stjórnvöldum til að bregðast við veirunni.. Þá sagði Inga Sæland:

„Í raun og veru var ég ekki að koma hingað til að eyða öllum þessum tíma í þetta og Le Pen takturinn sem þú ert að taka við mig hér í annað sinn,“ sagði Inga og hélt áfram:

„Það var einmitt í viðtali við þig sem þú varst að gera mig að popúlista sem ykkur finnst svo gaman að gera. Halló, hér er ég, popúlisti Íslands. Ég er náttúrulega poppari og allt það. Það var hér, í viðtali við þig.“

Þá sagði Inga Sæland einnig:

„Mig langaði að tala um pólitík. Meira um pólitík og ég hélt að þetta hefði átt að koma aðeins í endann, en þú hefur bara ekki getað beðið að fara í það hvað maður væri vitlaus að vita ekki um þessa veiru og vera með stórar yfirlýsingar.“