Saga er ástfangin af trans stráknum bjarka - óttast viðbrögð föður síns: „hann sagði beint út að manneskjunni yrði hafnað úr fjölskyldunni"

Mynd: Samsett/Skjáskot

Saga Ýr Nazari er ung tónlistar- og útvarpskona sem starfar á X-inu. Á síðasta ári varð Saga ástfangin af trans stráknum Bjarka Steini Péturssyni en fram að því hafði hún aðeins verið í gagnkynhneigðum samböndum.

Saga og Bjarki eru saman í dag og hefur hún aldrei verið hamingjusamari. Þrátt fyrir mikla ást og hamingju óttast Saga viðbrögð föður síns sem er strangtrúaður múslimi búsettur í Noregi.

Þegar Saga og Bjarki kynntust á síðasta ári urðu þau strax góðir vinir en þá var hann ekki kominn út úr skápnum sem trans strákur. Í viðtali við Ísland í dag segir Saga upphafið að sambandinu hafa byrjað mjög fljótt en var þó ekki ást við fyrstu sýn.

„Það var instant tenging alveg klárlega en ég hélt fyrst að þetta væri bara svona eins og bestu vinir frá fyrstu sýn. Það var eins og ég hefði þekkt hann mjög lengi. Þá var hann ekki kominn út úr skápnum sem trans. Þá var þetta bara kvenmaður. Ég fann bara að þessi vinatengsl voru miklu dýpri en ég gerði mér grein fyrir og áttaði mig síðan bara á því að ég var ástfangin,“ segir Saga sem var að upplifa alveg nýja hluti.

„Þetta var nýtt fyrir mér en ég dæmdi mig ekki fyrir það. Ég var ekki með fordóma gagnvart sjálfri mér fyrir að vera hrifin af stelpu. Þegar ég kynntist honum sem kvenmanni, þegar ég var ástfangin af kvenmanni var ég klárlega að upplifa þetta þannig að ég hef alltaf verið hrifin af karlmanni því hann hefur alltaf verið strákur. Klæðaburður og allt, þetta hefur alltaf verið strákur.“

\"\"

Eftir að hafa þekkst í um tvo mánuði viðurkenndu Saga og Bjarki sínar raunverulegar tilfinningar fyrir hvoru öðru og á svipuðum tíma ákvað Bjarki að koma út fyrir Sögu sem trans.

„Ég var svo ástfangin af honum að það hefði ekki skipt mig neinu máli ef hann hefði ekki verið með nein kynfæri. Skilurðu hvað ég a við, það hefði ekki skipt mig neinu máli,“ segir Saga og viðurkennir að ferlið hafi tekið á þau bæði.

„Þetta reyndi ótrúlega mikið á sjálfsímyndina hans og tilfinningakerfið. Að þurfa að koma út fyrir öllum, að þurfa að fara í gegnum nafnabreytinguna og segja fólki frá því og leiðrétta fólk þegar það miskynjaði hann.“

Saga stóð þétt við sinn mann og hjálpaði honum í gegnum allt ferlið eins og hún gat. Þrátt fyrir að hafa verið búin að vera saman í dágóðan tíma núna hefur Saga ekki enn greint föðurfjölskyldu sinni sem búsett er í Noregi frá sambandinu. Fjölskyldan er mjög íhaldssöm og eru þau strangtrúaðir múslimar.

„Þau vita þetta ekki. Þau vita ekki að ég er með transstrák. Þau hafa ekki komist að því ennþá en ég veit að ég þarf að segja þeim frá þessu fyrr eða síðar en ég hef bara ekki tekið þetta símtal. Ef ég og Bjarki giftumst þá vil ég geta flaggað trans fánanum,“ segir Saga og útskýrir að hún hafi átt samræður við faðir sinn þegar hún var yngri um samkynhneigð sem hafi ekki endað vel.

„Pabbi sagði alveg reglulega við mig þegar ég var yngri og var svona forvitin og spurði hann út í það hvernig það yrði tekið í það ef einhver fjölskyldumeðlimur upplifi sig sem samkynhneigðan eða tvíkynhneigðan, hann sagði beint út að manneskjunni yrði hafnað úr fjölskyldunni. Það myndi engin tala við viðkomandi, enginn bjóða manni í matarboð eða heimsókn og að það væri ekki velkomið.“

Vegna mismunandi lífsgilda býr Saga sig undir það versta þegar kemur að því að greina fjölskyldunni frá sambandinu.

„Að ég fái mögulega ekki að sjá föðurfjölskylduna aftur. Ég elska þau og þau eiga stað í hjartanu mínu þó þau séu strangtrúuð og hafi allskonar gildi sem ég er ekkert sammála og hef aldrei verið sammála. En þetta er stór hluti af mér. En ég er ástfangin af Bjarka og þetta er maður sem ég sé fyrir mér að stofna fjölskyldu með og hann er fjölskyldan mín í dag. Mig langar ekki að fela hann. Mig langar ekki að fela okkur, mér finnst það vera merki um skömm. Ég veit að ég er að upplifa höfnun, en ég er tilbúin til þess að taka því,“ segir Saga og viðurkennir að Bjarki sé maðurinn sem hún sjái fyrir sér að eyða restinni af lífinu með.

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni hér fyrir neðan: