Reykjavíkurborg hyggst ekki kæra neinn þrátt fyrir skýr brot á lögum tengd braggamálinu

Bjarni Brynjólfsson, upplýsingarstjóri Reykjavíkurborgar, segir í svari til Hringbrautar að Reykjavíkurborg hyggist ekki kæra neinn vegna þeirra upplýsinga sem koma fram í skýrslu borgarskjalavarðar. Í skýrslu borgarskjalavarðar Reykjavíkurborgar, einnig í skýrslu Innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar, að lög um opinber skjalasöfn hafi verið brotin. Í 47 grein þeirra laga kemur fram að allt að brot á lögunum geti varðað allt að þriggja ára fangelsi. Hringbraut sendi spurningar þann 13 febrúar síðastliðinn og voru svör að berast í dag vegna málsins.

Einnig kemur í svari Bjarna að Innri endurskoðandi hyggist ekki taka málið upp aftur, þrátt fyrir að hafa ekki haft aðgang að öllum gögnum málsins þegar hann gerði ítarlega skoðun á Braggamálinu. Þá bendir hann á að borgin hafi farið að ábendingum Innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar um bætta skjalavörslu.

Í viðtali í þættinum í Bítinu á Bylgjunni sagði Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarnar, að það sé ekki nýtt að lög um skjalavörslu séu brotin á Íslandi. Þá sagði hún einnig að viðurlögin við brotum á lögum um skjalavörslu séu ekki slík að fólk sé kært. En eins og kemur fram að ofan er allt að þriggja ára fangelsisdómur fyrir brot á lögunum.

„Já þetta eru lög, en viðurlögin við broti á þessum lögum eru ekki slík að það sé almennt hlaupið fram og fólk sé kært,“ sagði Heiða. Þá segir hún einnig í viðtalinu að engum gögnum hafi verið eytt sem tengjast Braggamálinu. Hins vegar staðfesti Reykjavíkurborg það á sínum tíma að öllum tölvupóstum Hrólfs Jónssonar, fyrrverandi skrifstofustjóra skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, hafi verið eytt. Hrólfur var yfir framkvæmdum á Bragganum.

Í samtali við Hringbraut segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, að hún telur að borgarlögmaður verði að taka þá ákvörðun hvort einhverjir verði kærðir vegna brota á lögum um skjalavörslu. Treystir hún á að borgarlögmaður skoði málið og taki ákvörðun um það. 

Í skýrslu sem Borgarskjalasafn Reykjavíkur lét gera vegna gagna sem tengjast Braggamálinu svokallaða koma fram tölvupóstssamskipti starfsmanns Arkibúllunar og starfsmanns Reykjavíkurborgar. Í þeim samskiptum spyr starfsmaður Arkibúllunar, sem hafði yfirumsjón með byggingu braggans, sérstaklega starfsmann Reykjavíkurborgar hvort fjölmiðlar munu hafa aðgang að þeim upplýsingum sem hann væri að senda.

Starfsmenn Reykjavíkurborgar brutu lög um skjalavörslu og skjalastjórn í tengslum við uppbyggingu Braggans í Nauthólsvík. Það er niðurstaða frumkvæðisrannsóknar Borgarskjalasafns Reykjavíkur. Skýrsla um niðurstöðurnar lá fyrir í desember á síðasta ári.

Í skýrslunni koma fram tölvupóstssamskipti á milli starfsmanns Arkibúllunar og starfsmanns Reykjavíkurborgar. Þar eru þau að ræða gögn sem falla undir upplýsingalög og eiga því að vera aðgengileg. Svarar starfsmaður Reykjavíkurborgar starfsmanni Arkibúllunar að senda honum umrædd gögn í PDF-skjali sem ekki sé hægt að opna.

„Ok, græja það. Eru þessar fundargerðir opinberar? Ég meina hafa fjölmiðlar rétt á þeim?“, segir orðrétt í póstinum.

Svarar þá starfsmaður Reykjavíkurborgar:

„PDF væri best helst þannig að ekki sé hægt að opna þau“

Í kvöldfréttum RÚV þann 16. febrúar sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, að líklega væri starfsmaður Reykjavíkurborgar að tala um að starfsmaður Arkibúllunar ætti að senda gögnin í PDF svo helst þannig að ekki væri hægt að breyta þeim, þrátt fyrir að í tölvupóstssamkiptunum komi skýrt fram að beðið sé um að ekki sé hægt að opna þau. 

Reykjavíkurborg greiddi Arkibúllunni rúmar 28 milljónir fyrir hönnunina á bragganum og um 7 milljónir króna vegna eftirlits með verkefninu og verkefnastjórnun, alls um 35 milljónir króna. Samtals er um að ræða um 2000 klukkutíma tengt hönnun sem Arkibúllan vann eingöngu vegna hönnunar á Bragganum.