Ráðherrar verða jafnvel dregnir til ábyrgðar vegna wow-air

Sú staðreynd að Ísavía hafi tapað málaferlum sem leiddu til þess að veð sem fyrirtækið hafði fyrir tveggja milljarða skuld WOW gildi ekki, leiðir til þess að nú mun athyglin beinast að því hverjir heimiluðu þessu ríkisfyrirtæki að leyfa WOW að safna milljarðaskuldum við Ísavía. Flugvél í eigu erlends flugvélaleigufyrirtækis var kyrrsett á Keflavíkurflugvelli eins og kunnugt er. Ísavía taldi að flugfélin stæði sem trygging fyrir tveggja milljarða skuld WOW en niðurstaða dómstóla er önnur. Vélin er farin, veðið er flogið burtu og Ísavía situr uppi með tveggja milljarða skaða og hlýtur að gera kröfu í þrotabú félagsins. Ekki er gert ráð fyrir að neitt að ráði komi út úr þeirri kröfugerð.

 

Þá vakan spurningar um það hvernig það gat gerst að ríkisfyrirtæki hafi mismunað viðskiptavinum sínum með þeim hætti að leyfa einum aðila að skulda milljarða á meðan aðrir þurftu að greiða reikninga sína skilvíslega og í samræmi við fyrirfram ákveðnar reglur. Svara verður krafist um þetta. Nánast útilokað er að forstjóri Ísavía eða aðrir yfirmenn fyrirtækisins hafi heimilað þetta. Forstjóri hlýtur að hafa lagt málið fyrir stjórn Ísavía þar sem Ingimundur Sigurpálsson var formaður. Mjög ólíklegt er að stjórnin hafi viljað taka á sig þá ábyrgð að mismuna viðskiptavinum, brjóta vinnureglur og taka fjárhagslega áhættu upp á tvo milljarða króna.

 

En hvar hefur ákvörðun um þetta þá verið tekin?

 

Ætla má að stjórn Ísavía hafi snúið sér til þess ráðherra sem skipaði hana. Fjármálaráðherra heldur á eignarhlut ríkisins í fyrirtækinu og hann skipar alla stjórnarmennina. Stjórnin hlýtur að hafa snúið sér til þess ráðherra sem fékk þeim valdið og ábyrgðina í hendur. Er líklegt að fjármálaráðherra hafi viljað taka ábyrgð á þessu vafasama fyrirkomulagi einn og óstuddur? Nei, Bjarni Benediktsson er ekki fæddur í gær. Hann hefur væntanlega tekið málið upp við ríkisstjórnina – eða að minnsta kosti hina tvo formenn ríkisstjórnarflokkanna.

 

Það hlýtur að koma á daginn og verða upplýst hvar hin endanlega ákvörðun var tekin um að leyfa WOW að safna skuldum við Ísavía upp á tvo milljarða sem væntanlega tapast að mestu leyti. Tók stjórn Ísavía þessa ákvörðun, var það fjármálaráðherra, voru það formenn ríkisstjórnarflokkanna saman eða öll ríkisstjórnin?

 

Almenningur, sem er eigandi ríkissjóðs, á heimtingu á að þetta verði upplýst þannig að unnt sé að draga rétta aðila til ábyrgðar. Hér hafa fjölmiðlar hlutverki að gegna.