Píratar fordæma harðlega framsalskröfu á hendur Assange: „Bein aðför að fjölmiðlafrelsi“

Píratar fordæma harðlega framsalskröfu á hendur Assange: „Bein aðför að fjölmiðlafrelsi“

Þingflokkur Pírata hefur sent frá yfirlýsingu þar sem framsalskrafa Bandaríkjanna á hendur Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, er fordæmd harðlega. Í gær samþykkti Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, að verða við kröfu Bandaríkjanna, en breskir dómstólar munu þó taka lokaákvörðun um hvort Assange verði framseldur til Bandaríkjanna þegar hann kemur fyrir dómara í dag.

Bandarísk yfirvöld hafa ákært Assange fyrir landráð. Varða ákærurnar, sem eru 18 talsins, meðal annars meintar ólögmætar tilraunir hans til að verða sér úti um og birta trúnaðargögn er varða þjóðaröryggi með því að brjóta lög um njósnastarfsemi.

„Framganga bandarískra stjórnvalda í máli Assange er bein aðför að fjölmiðlafrelsi enda er gróflega vegið að vernd uppljóstrara sem gjaldfellir lýðræðislegt eftirlitshlutverk fjölmiðla. Blaðamenn sem fjalla um jafn brýn mál og þjóðaröryggi eru nú orðnir að skotspóni lögregluaðgerða og lögsókna. Hafa verður í huga að fyrir tilstuðlan Julian Assange var almenningur upplýstur um stríðsglæpi Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra,“ segir í yfirlýsingu Pírata.

Píratar telja að þegar fjölmiðlafólk njóti ekki verndar til að fjalla um viðkvæmar upplýsingar grafi það undan getu þeirra til að stunda gagnrýna blaðamennsku. „Herferð Bandaríkjastjórnar gegn blaðamennsku af þessari tegund mun hafa víðtæk áhrif sem munu bergmála um allt samfélagið.“

„Píratar vona að breskir dómstólar muni við meðferð framsalsbeiðni Assange síðar í dag láta tjáningarfrelsi og réttindi fjölmiðla vega þyngra en þöggunartilburði og hefnigirni Bandaríkjastjórnar,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.

Í gær fordæmdu sömuleiðis Félag fréttamanna RÚV og Blaðamannafélag Íslands framsalskröfu Bandaríkjanna og ákvörðun Javid um að verða við henni.

Nýjast