Páll winkel segir að 90% fanga á íslandi glími við eiturlyfjafíkn - „al­veg dag­ljóst að það þarf að skipta um aðferð“

Páll Winkel, for­stjóri Fang­els­is­mála­stofn­un­ar, segir að allt að 90% af öllum föngum landsins glími við fíkniefnavandamál og að það sé alveg dagljóst að skipta þurfi um aðferð í baráttunni gegn fíkniefnum innan fangelsanna. 

„Ég áætla að um 70-90% fanga glími við eit­ur­lyfjafíkn­ina. Í opnu fang­els­un­um eru menn komn­ir lengra í bata, en í lokuðu fang­els­un­um eru 90% fanga í virkri fíkn. Við erum að glíma við harðari og harðari efni og það er al­veg dag­ljóst að það þarf að skipta um aðferð í þeirri bar­áttu,“ segir Páll í samtali við Morgunblaðið.

Páll segir að fíkniefnin komist inn í fangelsin með ættingjum og vinum fanga, ásamt því að koma með mat og öðrum vörum sem fangelsið fær. Ný fíkniefni ,eins og eiturlyfið sem gengur undir nafninu Spice, er lyktarlaust og er því erfitt að finna það í leit. Þá þurfi eingöngu eitt gramm af efninu til að búa til um eitt hundrað neysluskammta.

„Við höf­um oft verið gagn­rýnd fyr­ir það að fíkni­efni kom­ist inn í fang­elsi. Það er nú þannig að fang­ar eiga rétt á að fá heim­sókn­ir frá ætt­ingj­um og vin­um. Svo þarf að senda mat og vör­ur inn í fang­els­in. Við erum með fíkni­efna­hund og mjög öfl­ugt starfs­fólk sem leit­ar á öll­um og í þessu öllu sam­an, en þegar komið er efni sem er lykt­ar­laust, og þar sem eitt gramm verður að hundrað skömmt­um, þá get­urðu ímyndað þér hvað það er erfitt að koma í veg fyr­ir svona send­ing­ar. Við vit­um hvaða fang­ar eru að dreifa fíkni­efn­um inn­an fang­els­anna en efn­in koma hins veg­ar ekki inn með heim­sókn­ar­gest­um þeirra. Þvert á móti eru það heim­sókn­ar­gest­ir lágtsettra fanga sem eru þvingaðir til að koma með efni inn í fang­els­in.“