Óttar ósáttur: „Þetta tekur allt saman enda“

Óttar Guðmundsson geðlæknir segir fréttir af hamfaraveðrum, kvíða og kórónaveirum valda kvíða hjá fólki. Læknar þurfi að gefa í auknum mæli róandi lyf. Þá gagnrýnir hann fjölmiðla og segir frásagnir af kórónaveirunni vera orðnar eins og íþróttakeppni. Þá hversu margir hafi veikst og hversu margir hafi látist og það séu fyrstu fréttir í öllum helstu fréttatímum.

Þá segir Óttar á öðrum stað:

„Ég kalla þetta hamfarablæti sem ríkir núna í fjölmiðlum. Þar eru blásin upp öll þessi ótíðindi.“

Óttar segir allar þessar fréttir ýta undir kvíða hjá skjólstæðingum sínum. Hann telur þó að ekkert sé að óttast.

„Það hafa alltaf verið vond veður á Íslandi og við höfum upplifað verkföll, jarðskjálftavá og eldgos áður. Þetta tekur allt saman enda, þannig verður á endanum samið í þessum verkföllum og veiran virðist til dæmis ekki vera neitt í líkingu við spænsku veikina. Það er ekkert sem bendir til þess að það verði eldgos í Grindavík, þannig að við ættum aðeins að reyna að horfa raunsæjum augum á allar þessar hamfarafréttir.“