Björn: „Öllum illa brugðið“ - Starfsmenn komu árásarmanninum út úr Krónunni

Björn: „Öllum illa brugðið“ - Starfsmenn komu árásarmanninum út úr Krónunni

Á mynd: Björn Másson - Starfsmönnum var brugðið
Á mynd: Björn Másson - Starfsmönnum var brugðið

„Það er ekkert gleðilegt við þennan föstudag. Í dag hringir maðurinn minn í mig og segir mér að ráðist hafi verið á hann í vinnun[n]i, bæði munnlega og líkamlega. Hann býður kúnna góðan daginn, og hvort hann geti aðstoðað. Kúnninn snýr sér að honum og segir með reiði „ert ÞÚ að tala við mig“ og Destiny segir „já, get ég aðstoðað?“ (Destiny talar íslensku við kúnnan[n])“

Á þessum orðum hefst færsla Árdísar Pétursdóttur á Facebook, þar sem hún greinir frá hvernig eiginmaður hennar, Destiny, hafi orðið fyrir kynþáttaníði og líkamsárás við störf sín í Krónunni á föstudaginn.

Hún lýsir óhugnanlegri árásinni svo: „Þessi maður snýr sér svo að Destiny, kallar hann negra, og byrjar að garga á hann svo glymur um alla verslun. Hann lemur í bringuna á Destiny með báðum höndum, svo hann meiðir sig, kallar hann African monkey, mongoloid, negra, nigger og fleira. Hrindir honum og spyr hvort hann vilji fight. Destiny er þögull og svarar ekki fyrir sig meðan þessi maður er með andlitið á sér ofan í andlitinu á Destiny meðan hann öskrar þetta yfir hann.“

Árdís þakkar samstarfsfélögum Destiny að ekki hafi farið verr. „Sem betur fer þá voru samstarfsfélagar hans nokkuð snöggir á staðinn þegar þeir heyra þessi n[í]ðyrði öskruð, og ganga á milli þeirra til að varna því að gengið yrði hreinlega í skrokk á Destiny. Kúnnar urðu vitni að þessu, og var verslunarstjóra tjáð að þetta væri atburðaröðin og sögðu að starfsmaður hefði ekkert sagt né gert meðan á þessu gekk.“

„Öllum illa brugðið eins og gefur að skilja“

Í samtali við Hringbraut segir Björn Másson, mannauðsstjóri Krónunnar, að viðbrögð starfsmanna hafi verið hröð en því miður hefði gleymst að hringja strax til lögreglu. „Starfsmenn brugðust hratt við og komu samstarfsmanni sínum til hjálpar og komu árásarmanninum út úr versluninni. Það var öllum illa brugðið eins og gefur að skilja en því miður var ekki hringt á lögregluna eins og hefði átt að gera. Það er skýrt í verklagsreglum Krónunnar að hafa alltaf samband við lögreglu ef um ógnandi hegðun sem ógnar öryggi starfsmanna eða viðskiptavina er um að ræða.  Til að koma í veg fyrir að slík mistök séu endurtekin höfum við farið yfir málið innanhúss og ítrekað okkar verklagsreglur við okkar verslunarstjóra, segir Björn“

Björn sagði einnig að Krónan stæði vel við bakið á sínum starfsmönnum. 

„Sem betur fer koma svona mál afar sjaldan upp en í svona tilfellum viljum við styðja vel við bakið á okkar starfsmanni og veita alla þá aðstoð sem hann þarf á að halda. Hvort sem það er áfallahjálp eða önnur aðstoð. Öryggi okkar starfsmanna sem og viðskiptavina skipta auðvitað höfuð máli.“

 

Nýjast