Menningarfé fari í flóttamenn

Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, viðrar þá hugmynd á Facebook-síðu sinni að hugsanlega ætti Menningarnótt að vera tekin af fjárhagsáætlun borgarinnar og fjármunirnir settir í að aðstoða flóttamenn.
 

Kjarninn greinir frá því að á borgarstjórnarfundi í dag verði lögð fram tillaga með afbrigðum um viðbrögð Reykjavíkurborgar við þeim flóttamannavanda sem Evrópa stendur frammi fyrir. Öll framboð sem eiga fulltrúa í borgarstjórn standa á bak við tillöguna. 

Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, veltir þeim möguleika fyrir sér á Facebook-síðu sinni hvort ekki ætti að nýta fjármunina sem færu í Menningarnótt í flóttamannaaðstoð: \"Þá þarf ekki að bíða eftir að allt borgarkerfið breyti um nauðsynlegan kúrs í taprekstri grunnþjónustunnar til að eiga fyrir þeirri aðstoð heldur væri hægt að gera eitthvað strax. Væri kannski symbólískt fallegt að í staðinn fyrir hátíðarhöld geti borgarbúar minnt sig á að einhverjum nokkrum hafi verið hjálpað sem annars kannski hefðu ekki fengið neina hjálp.“