Lúxus-tesla skúla mogensen veldur usla í hafnarfirði: „þetta var fyndið fyrst“

Margir íbúar við Heiðarás í Áslandshverfi í Hafnarfirði eru orðnir langþreyttir á  lúxusbíl Skúla Mogensen sem hefur verið geymdur í götunni undanfarna tvo mánuði. Sjálfur er Skúli búsettur á Seltjarnarnesi.

Að sögn kunnugra mætti auðkýfingurinn í gleðskap í hús eitt í götunni um mánaðarmótin október - nóvember en hafi síðan yfirgefið teitið í leigubíl og kerran ekki verið sótt síðan þá. Einn íbúi við götuna segir:

„Fyrstu vikurnar var þetta bara fyndið og var í raun skemmtileg saga. Núna er farið að renna okkur tvær grímur og maður er farinn að átta sig á að þetta orðinn dónaskapur og sýnir virðingaleysi gagnvart náunganum. Það eru margir í götunni orðnir mjög ósáttir.“

Bíllinn, sem er af gerðinni Tesla S, vakti nokkra athygli þegar Skúli fjárfesti í honum árið 2013 en þá var þetta einn fyrsti bíllinn af þessari tegund hérlendis. Kaupverðið var á annan tug milljóna króna á þeim tíma.