Bryndís þráði að deyja: „Ofbeldi var mikið, líkamlegt, andlegt og kynferðislegt“

Bryndís þráði að deyja: „Ofbeldi var mikið, líkamlegt, andlegt og kynferðislegt“

Bryndís Steinunn DeLavega kemur frá heimili þar sem hún segist hafa verið beitt ofbeldi, líkamlegu, andlegu og kynferðislegu. Hefur það litað allt hennar líf.

„Það er svo margt sem kemur eftir á sem fólk veit ekki um eins og skrítnar tilfinningar og hugsanir sem margir halda að séu óeðlilegar og þora ekki að tala um. Að geta hjálpað öðrum með því að skrifa um þetta gerir ótrúlega mikið og er kraftaverk á gömul sár. Ég vil líka minna á að stundum líður manni vel og það er í lagi og stundum líður manni illa og það má líka,“ segir Bryndís í samtali við Hringbraut.

Fór ekki í bað í þrjár vikur

Frá því að Bryndís man eftir sér hefur hún tekist á við heiminn með bros á vör en faldi kvölina, sársaukann og tárin.

„Ég kem frá heimili þar sem ofbeldi var mikið, líkamlegt, andlegt og kynferðislegt en svarið við öllu var „Brostu og vertu sæt þá er ekkert að“. Ég hef lifað lífinu eftir þessu mottói ásamt því að bíta í jaxlinn og halda bara áfram.“

Árið 2010 brotnaði múrinn sem Bryndís Steinunn hafði byggt sér. Féll hún algjörlega saman bæði andlega og líkamlega.

„Gríman virkaði ekki lengur. Systir mín lá fyrir dauðanum og mér fannst allt vera að hrynja. Ég var lögð inn á Reykjalund þar sem ég var greind með mjög alvarlega geðlægð og ofsakvíða. Ég fékk mikla hjálp þar sem ég var byggð upp andlega. Ég hef fallið oft niður og í byrjun þessa árs féll ég djúpt í svartnættið þar sem ég varð alveg sinnulaus, gat ekki hugsað um barn eða heimili, eldaði ekki og í 3 vikur fór ég ekki einu sinni í bað.“

Þráði að deyja

Bryndís fékk sérstakt geðheilsuteymi sem kom heim og hjálpaði henni en hún skoraði fullt hús stiga á öllum prófum og var sett í gjörgæslu.

„Áfallastreituröskunin hjá mér mældist jafn há og hjá flóttamönnum nýkomnum frá Sýrlandi. Farið var með mig uppá geðdeild en þaðan labbaði ég út enn niðurbrotnari, 5000 krónum fátækari eftir að fá að vita að þar sem ég þráði bara að deyja en vildi nú ekki stúta mér sjálf þá væri ekki mikið að.“ 

Í haust fékk Bryndís svo loks inn hjá Reykjalundi aftur með aðstoð geðhjúkrunarfræðings sem lá stanslaust í símanum og ýtti á þau.

„Ég var í gistingu í fjórar vikur og keyrði svo á milli næstu tvær. Þar fer fram vinna sem er kraftaverki líkust. Mér var hjálpað við að sætta mig við fortíðina og vinna í henni og reyna að nota reynslu mína í að aðstoða aðra sem lent hafa í kynferðisofbeldi og öðrum áföllum sem ég þekki svo alltof vel til. Ég hef unnið fullt í mér en þetta er vinna sem er aldrei lokið.“

Fjölskylda Bryndísar, vinir hennar og trú hjálpa henni mikið og það að hún hafi getað viðurkennt að hún þurfti hjálp. 

„Og að fá að vera ég með öllum mínum kostum og göllum.“

Nýjast