Krónan kostar heimilin milljón á ári

Hver fjölskylda á Íslandi borgar 80 þúsund krónur aukalega á mánuði vegna viðbótarkostnaðar við íslenska krónu samkvæmt úttekt efnahagsritsins Vísbendingar.

Árlegur aukakostnaður ríkisins og sveitarfélaganna af sömu ástæðu er talinn vera samtals 40 milljarðar króna. Í samantekt Fréttablaðsins um þetta efni í dag segir að aukakostnaður þjóðarinnar af því að halda úti íslenskri krónu nemi 110 til 130 milljörðum króna á ári.

Vísbending réðst í þennan útreikning í tilefni af svari fjármálaráðherra við fyrirspurn varaþingmannsins Björgvins G. Sigurðssonar um hver væri áætlaður beinn árlegur vaxtakostnaður íslenskra heimila og fyrirtækja vegna krónunnar, samanborið við vaxtastig alþjóðlegrar myntar á borð við evru. Í svari ráðherrans kemur fram að kotsnaðuri heimilanna, miðað við skuldir þeirra, sé á bilinu 0,6 til 1,5%, eða 11 til 29 milljarðar á ári. Ósvarað er þá spurningunni um kostnað fyrirtækjanna af völdum krónunnar sem erfiðara sé að áætla, en sem kunnugt er gera flest stærstu fyrirtæki landsins upp í erlendri mynt - og hafa í raun hafnað krónunni í milliríkjaviðskiptum.